11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Forsætisráðh. (Jón Magnússon):

Jeg hefi skilið svo háttv. framsm. (M. P.), að meiningin með tillögu nefndarinnar, að ekki sje keypt minni skip, sje sú, að ekki verði keypt önnur skip en þau, sem hentug eru til Ameríkuferða. Mjer skilst, að nefndin telji minni skip ekki hentug til flutninga svo langa leið. Þótt þessu stærðarákvæði sje kipt burtu, býst jeg við að landsstjórnin taki hæfilegt tillit til þessa álits, því að jeg skil svo nefndina, að hún telji ekki nauðsynlegt, að kaupa millilandaskip til annarra ferða. Jeg held, að heppilegra sje, að lögin rígbindi ekki stjórnina að þessu leyti. En jeg vil taka fram, að háttv. nefnd hefir sjálfsagt verið ljóst, að framkvæmdir þessa máls verða erfiðar. Til allra þeirra framkvæmda, sem stjórninni er veitt heimild til, þarf stór lán. Ef mikið þarf að kaupa af vörum, þarf talsvert hátt lán. Ef kaupa á stór skip, þarf enn stórlán. Jeg býst ekki við, að bankarnir hjer geti veitt svo stór lán til langs tíma. Hvernig ganga mundi að fá lán erlendis, getur ráðuneytið ekki sagt. En þessi lög eru heimildarlög til framkvæmda, að því sem fært er, og brýna nauðsyn ber til.