05.01.1917
Neðri deild: 15. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

29. mál, ullarmat

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Jeg er þakklátur þessum háttv. þm., sem talað hafa, fyrir góðar undirtektir. Sjerstaklega er jeg þakklátur háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), og er það þakklæti mitt bygt á því, að mótmæli hans móti frv. voru staðleysa. En aðrir ættu einnig að þakka honum, nefnilega þeir útlendir menn, er hug hafa á, að ná góðum ullarkaupum hjer á landi. Í þeirra nafni hefir þessi háttv. þm. (E. J ) ógnað Alþingi Íslendinga í dag. Mjer þykir þá skörin tekin að færast upp í bekkinn, er alþingismenn segjast ekki þora að taka þetta upp, sakir útlendra þjóða, án þess að færa nokkra ástæðu fyrir því, að útlendar þjóðir muni taka það illa upp. Það er að búa sjer til hættu og taka upp orð útlends harðstjóra, er vill öllu ráða, og muni móðgast, ef eitthvert sjálfstætt spor er stigið. Ætla jeg þó að annar mótmælandinn, þm. S.-Þ. (P. J.), hafi hrakið orð háttv. 2. þm. Rang. (E. J.).

Hann gat þess, að í samningunum hefði verið vikið frá lögunum. Þetta sannar ekki, að sú þjóð, sem samninginn gjörði, Bretar, muni móðgast, ef framkvæmd laganna yrði frestað, heldur sannar það einmitt hið gagnstæða. Fyrir þetta er jeg þakklátur háttv. þm. S.-Þ. (P. J.). Í samningnum var ekki farið eftir lögunum, og vegna þess, að framkvæmd þeirra hafði ekki verið frestað, er samningarnir voru gjörðir, leit í fyrstu út fyrir, að verðið yrði lakara en raun varð á, er það ráð var tekið upp, að víkja frá lögunum. Er sjálfsagt, að láta þetta ekki koma fyrir aftur. Sjá allir, að þeir, sem fara með ullarverslunina fyrir landið eða einstök fjelög, eru þá ekki bundnir við nein lög. Gæti það orðið þeim til ljettis við að ná góðum samningum. Þetta eru að eins almenn atriði, sem allir ættu að geta sjeð við íhugun. Jeg skil vel háttv. þm. S.-Þ. (P. J.). Hann óttast, að af frestuninni muni leiða það, að lögin nái síður tilgangi sínum; menn muni venjast af framkvæmd þeirra, og afleiðingin verða virðingarleysi fyrir þeim. Jeg skil vel orð þessa háttv. þm. (P. J.), sem er þetta lifandi áhugamál. En afleiðingin af frestuninni verður ekki þessi. En þessi afleiðing kemur einmitt fram, ef menn gjöra sjer kostnað við ullarmat og flokkun, sem engan árangur ber, sakir þess, að nú er ekki um frjálsa verslun að ræða, heldur hernaðarástand, og varan gengur eftir öðrum reglum. Þegar menn einungis tapa á lögunum, þá kemur virðingarleysið fram.

Sumir háttv. þm. gjöra sjer að venju að standa upp og segja, að þessi og þessi þm. hafi ekki vit á máli því, sem hann er að ræða um. Jeg gjörði mig ekki svo djarfan nú fyrir skemstu, er jeg átti orðastað við háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), að efast um, að hann kynni grísku. En þessi háttv. þm. er ekki svo kurteis. Hann skal þá vita það, þessi háttv. þm., að jeg hefi miklu meira vit á ullarverslun heldur en hann. Jeg hefi lengi fengist við ullarverkun, og seldist sú ull með því besta verði, sem fekst fyrir ull á þeim stað. Jeg get líka frætt hann og aðra þá, sem gerir af búviti sínu miklu, að vjer, sem ekki búum í sveit, höfum eins gott og oft betra vit á búnaði en þeir, sem í sveit búa. Enda hefir það sýnt sig, er jeg hefi setið í landbúnaðarnefndum. Jeg hefi þar í engu verið eftirbátur annarra. Fyrirgefanlegra er, þótt þeir, sem lengi hafa fengist við ullarverslun, tali með valdi um málið, en þó getur þeim og missýnst, svo sem hv. þm. S.-Þ. (P. J.), er hann hrapar í þá hættu, er hann vill forðast.

Jeg er þakklátur háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fyrir orð hans. Mjer hefir aldrei dottið í hug, að hinir skipuðu ullarmatsmenn mistu laun sín. (Pjetur Jónsson: Eiga þeir þá að fá 90 aura uppbót?). Þingeyingar eru manna vísastir til slíks höfðingsskapar, og hið sama er um aðra landsmenn. Jeg tel víst, að þeir haldi launum sínum. Það myndi eigi setja stór öfl í hreyfingu hjer á landi, þótt þeim væri greidd laun sín meðan frestunin stæði yfir.

Annars ættu háttv. þm. að geta spreytt sig á þessum og öðrum atriðum málsins við 2. umr. Get jeg ekki fallist á, að nein rjettraæt ástæða hafi komið fram móti frestuninni. En nú mun jeg láta meðflutningsmenn mína tala fyrir málinu að sinni, og geyma mjer að taka til máls síðar. En jeg vil benda þeim, sem efast um búvit mitt, á þá, er málið flytja með mjer.