05.01.1917
Neðri deild: 15. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

29. mál, ullarmat

Einar Arnórsson:

Háttv. þm. Dala. (B. J.) fórust svo orð, sem menn væru hræddir við að samþykkja þessa frestun laganna, sökum ógnana frá öðru veldi. Þar til er því að svara, að það er auðvitað heimilt að samþykkja frestun; það getur enginn bannað. En aðalspurningin í þessu máli er sú, hvort frestun sje hagkvæm, og lausn spurningarinnar veltur á því, hvort frestun hafi heppilegar eða skaðlegar afleiðingar í för með sjer fyrir markaðinn. Jeg skal ekki segja um það, hver áhrif þetta hefði, ef markaðurinn væri frjáls og vjer gætum selt vöruna hvert, sem vjer vildum; jeg skal ekkert fullyrða um það, hvað menn mundu þá leggja upp úr ullarmatslögum. En það, sem háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði um breska samninginn í sambandi við þetta mál, var á misskilningi bygt. Hann sagði, að vikið hefði verið frá ullarmatslögunum við samningagjörðina. En þetta er alveg rangt. Þvert á móti var það einmitt sett sem skilyrði, að ullin væri metin. Það er því svo langt frá, að vikið hafi verið frá ullarmatslögunum, að þeim hefir einmitt verið fylgt. En það, sem háttv. þm. Dala. B. J.) hefir flaskað á, er það, að vikið var frá flokkunarreglunum. (Bjarni Jónsson: Eru þær ekki í lögunum ?) Nei, eftir heimild ullarmatslaganna fara flokkunarreglurnar eftir reglugjörð, sem stjórnarráðið setur; slíka reglugjörð má setja, án þess að breytt sje kommu eða staf í lögunum.

Annars get jeg hugsað mjer, þótt ekki viti jeg neitt um það, að frestun kunni ef til vill að spilla fyrir markaðinum, sem opnaður hefir verið fyrir þessa vöru; þess vegna er nauðsynlegt, að væntanleg nefnd taki málið til nákvæmlegrar athugunar, því að þótt þessi markaður þyki ljelegur, þá er þó betra að hafa hann heldur en engan markað.

Sami háttv. þm. (B. J.) sagði, að með því ástandi, sem nú er, væri góða varan ekki verðlaunuð. Þetta er einnig misskilningur. Eftir flokkunarreglunum, sem fylgt var við sölu ullarinnar til Breta, er einmitt höfð hliðsjón af því, hve góð varan er í heild sinni, og eftir flokkunum fer verðið. Hitt er annað mál, að verðið í heild sinni og þá sjerstaklega á háu flokkunum kann ef til vill að þykja of lágt, eða verðmunur of lítill. En fyrst greitt er hærra verð fyrir góða vöru en lakari, þá eru það verðlaun.

Fyrirspurn kom fram um það, hvað gjöra ætti við ullarmatsmennina, ef lögunum yrði frestað. Það liggur í augum uppi, að þegar lögunum er frestað, er einnig starfi þeirra frestað. Hitt er annað mál, hvort þingið vill bæta þeim upp þann halla, sem þeir verða fyrir, en engin skylda ber til þess.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) fórust svo orð, að það væri brestur á sjálfstæðistilfinningu, ef ullarmatslögin væru látin gilda. Mjer þykir þetta nokkuð hæpin staðhæfing, eins og háttv. þm. S.-Þ. (P. J.). (Bjarni Jónsson: Þau orð hefi jeg ekki sagt). Það má vera, að háttv. þm. Dala. (B. J.) hafi ekki viðhaft beint þessi orð, en sú var meining orða hans, eftir því sem mjer og fleirum skildust þau. Sama mætti þá segja t. d. um fiskimatslögin. Fyrst Spánverjar voru svo matvandir, að vilja heldur góðan fisk en vondan, mundi háttv. þm. Dala. (B. J.) telja það undirlægjuskap, að verða við ósk þeirra, að meta fiskinn, svo að trygging fáist fyrir gæðum hans og þar með fyrir hærra verði.

En aðaltilgangurinn með þessum orðum er sá, að leiða athygli væntanlegrar nefndar að því, hvort heppilegt sje að fresta lögunum, meðan stríðið stendur.

Um þekkingu manna á ullarmati skal jeg ekki segja neitt, en er þakklátur allri fræðslu í því efni, og gaman var að viðureign tveggja háttv. þm., er leiddu saman hesta sína um það efni, þótt ekki sje hægt að skera úr um það, hvor fremri sje, nema þeir gangi beint undir próf.