11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Gísli Sveinsson:

Eins og háttv. framsm. (M. Ó.) veit, var jeg einn í fjárveitinganefndinni, sem vildi, að fyrir þingið kæmi frumvarp til laga um talsverðan tekjuauka fyrir landssjóð. Og jeg sje eigi annan stofn heppilegri til að leggja á en þann, sem um ræðir í hinu fyrra frumvarpinu, er hjer var til umræðu næst á undan, um útflutningstoll á síld. En með því er þó ekki sagt, að jeg sje með þessu frv., því mjer finst það talsvert fjarskylt mál, en vona samt, að sjávarútvegsnefndin taki það eigi svo upp, að jeg vilji hindra eða eyðileggja tollfrumvarpið, þó að hinu síðara verði frestað. (Skúli Thoroddsen: Þau standa í nánu sambandi). Ekki standa þau í það nánu sambandi, þótt í báðum sje minst á síld.

En jeg er þeirrar skoðunar, að Norðmenn sæti hjer óvanalegum vildarkjörum, og vil vera með því, að stemma stigu fyrir uppivöðslu þeirra og yfirgangi, svo að afleiðingar af útvegi þeirra hnekki ekki, eins og nú á sjer stað, öðrum aðalatvinnuvegi þjóðarinnar, landbúnaðinum. Þó að Íslendingar hafi og nokkurn síldarútveg, þá er það hverfandi í sambandi við Norðmenn og aðrar þjóðir, enda hlýtur mönnum að blæða meira í augum upprót útlendinganna en landa sinna hjer við land. Mjer skilst, að það, sem aðallega hljóti að vera í vegi tollfrumvarpsins, sje verðlaunafrumvarpið; og ekki er það annað, sem andmælendur þess hafa haft fram að færa. En jeg fæ eigi sjeð, að Norðmenn mundu þurfa að styggjast við tollinn, ef hann væri lagður jafnt á alla síldarframleiðendur. Þess vegna hefði verið heppilegast, að þetta verðlaunafrv. hefði eigi komið hjer inn í deildina, heldur verið algjörlega um það þagað. Jeg hefi sannfærst um það við ræðu háttv. framsm. (M. Ó), að þótt þetta stæði til, þá hefði mátt fara með það meira í kyrþei. Og ef þetta hefði eigi komið til tals, þá gat það eigi leitt til neins ills, og erlendar þjóðir hefði eigi þurft að styggjast.

Ef svo er, að þetta verðlaunafrv. er það eina aðalatriði, er gæti staðið í vegi fyrir því, að tollfrumvarpið kæmi til framkvæmda, þá get jeg ekki lengur orðið samferða, og skil eigi hina einkennilegu röksemdafærslu háttv. flutningsmanna.

Háttv. framsm. (M. Ó.) hjelt því fram, að Norðmenn munaði ekki neitt um þennan litla toll, og er jeg þar algjörlega á sama máli. Að vísu er jeg ekki kunnugur gróða þeim, er af síldarútveginum flýtur, en jeg veit svo mikið, og það vita fleiri, að þá munar ekkert um þetta, og þá ætti Íslendinga ekki heldur að muna neitt tilfinnanlega um það.

Háttv. framsm. (M. Ó.) heldur því fram, að Íslendingar standi ver að vígi í þessu skyni en Norðmenn. En jeg lít svo á, að sje gróði undanfarinna ára svo mikill, að þetta sje fyllilega rjettlátt, sem í frv. stendur, þá á það í rauninni að gilda að eins á meðan ófriðurinn stendur yfir.

Jeg get vel fallist á þá leið, sem háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) benti á, að málinu sje eigi svo mjög hraðað, heldur sje einmitt stjórninni falið að undirbúa það og íhuga til næsta þings. En það mætti einnig fara aðra leið, og í staðinn fyrir háan toll og verðlaun, hafa tollinn lægri; yrði þá niðurstaðan lík, ef ekkert yrði borgað til baka.

Mjer hefir skilist háttv. framsm. (M. Ó.) komast svo að orði, að það væri sama sem að drepa útveginn, að vera á móti verðlaunafrumvarpinu. Trúi jeg tæpast, að hann hafi talað þar í umboði sjávarútvegsins. Jeg efa .það eigi, að sjávarútvegsmenn mundu með fúsu geði láta eitthvað lítið, eins og þetta, af gróða sínum renna í landssjóð, eins og nú hagar til, án þess að fá verðlaun þegar. Þá er og þess að gæta, að í staðinn fyrir þennan toll er afnuminn síldartollur eftir fyrri lögum. Hjer er heldur ekki svo mikið í húfi, að ekki megi komast að góðu samkomulagi við útgjörðarmenn, og til næsta þings fer enginn á hausinn fyrir þennan toll, því að vísast verður engin síld veidd og flutt út fyrr en næsta þing kemur saman. Er jeg því eindregið með því, að stjórninni sje falið að undirbúa málið til næsta þings, og mæli því með hinni rökstuddu dagskrá, sem fram er komin.