11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

48. mál, afnám laga

Einar Jónsson:

Það kann að virðast undarlegt að jeg stend upp til að andmæla þessu frv. Mig undrar það satt að segja, að þingmaður, sem sat á þingi 1915, skuli koma með slíkt frv. Þá (1915) var þetta mál vel athugað, og jeg gekk til dæmis inn á miðlun hv. þm. S.-Þ. (P. J.) í því máli, en hann vann manna mest að þessum lögum. Jeg veit, að mönnum til sveita voru þau ekki ljúf í fyrstu, en þau eru álitin að hafa reynst sanngjörn. Hafi þau verið sanngjörn í fyrra, eru þau það enn þá. Tollurinn hlýtur því eins og hingað til að veita landssjóði allmiklar tekjur, og enginn telur þær eftir. Jeg held, eins og hv. þm. V. Sk. (G. Sv.), að það sje heppilegast, að fara ekki fram á að afnema lögin nú. Það hafa ekki margir búist við þingi í vetur, og því síður hafa menn búist við, að nú yrði farið að afnema lög, er gilda eiga alt fjárhagstímabilið. Jeg skal viðurkenna, að það væri mjer hagur sem bónda, að lögin væri afnumin, en jeg ætla ekki að vera svo eigingjarn. Jeg held að þess háttar eigingirni eigi ekki heima hjer á þingi. Það hlýtur að vera einhver karl í Dalasýslu, sem hefir beðið hv. þm. Dala. (B. J.) að gjöra þetta fyrir sig.

Að svo mæltu legg jeg til, að frv. þetta verði felt nú þegar.