27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

13. mál, einkasala á steinolíu

Flutnm. (Jörundur Brynjólfsson):

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir að miklu leyti tekið af mjer ómakið. Gott þykir mjer að heyra, að allir segjast vera frumvarpinu fylgjandi. En hitt þykir mjer kátlegt, að málið sje svo umfangsmikið, að því verði eigi til lykta ráðið á þessu eða næsta þingi.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) telur það rjettu leiðina, að vísa málinu til stjórnarinnur með þingsályktun. Fæ jeg ekki sjeð, hvað unnið er við að vísa málinu til stjórnarinnar á þann hátt, nje heldur, að stjórnin eigi hægra með að semja lög um þetta efni en þingið sjálft. Jeg fæ eigi fljótlega skilið rökin fyrir því, að heldur beri að afgreiða málið með þingsályktun en lögum. Af framkomu háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) fæ jeg eigi annað sjeð en að hann sje blátt áfram mótsnúinn frv. Hann hefði sýnt meiri drengskap og hreinskilni með því, að segjast frv. mótfallinn, og berjast hreinlegar móti því en hann gjörir nú, er hann kveðst frv. hlyntur, en vegur svo aftan að því. Jeg vil heldur berjast móti hreinum mótstöðumanni en hinum, sem tjáir sig hlyntan mínum málstað, en gjörir svo ýmsar tilraunir til að búa honum banaráð. Jeg verð að segja það, að eftir þeim orðum, sem háttv. þm. V.-Ísf. lætur sjer um munn fara, eru áhugamál hans hvorki mörg nje mikil.

Það er síður en svo, að jeg vilji flaustra málinu af. Hingað til hefir olían verið flutt í tunnum. Þótt dregist gæti fyrir stjórninni að útvega olíugeymi og olíuskip, ætti hún að geta flutt olíuna eins og áður hefir tíðkast, nefnilega í tunnum. Eins og menn vita, er hjer eitt einokunarfjelag, er hefir að kalla alla olíuverslun landsins, og auðvitað er það, að ef framkvæmdir verða í þessu máli af hendi landsstjórnarinnar, þá dregur það sig í hlje, og hættir sjálfsagt að lokum. Fjelagið er að vísu voldugt, og má sín mikils, en lítið getur stjórnin, ef hún getur ekki útvegað olíu nú eins og hún hefir gjört undanfarið, þó í litlum mæli hafi verið. Fjelagið hefir verslunarsambönd og skip, en þess hvorttveggja ætti og stjórnin að geta aflað sjer, þótt nú fyrst um sinn eigi muni þess að vænta, að hægt sje að fá góðan skipakost. Undirbúningsins vegna tel jeg nauðsynlegt, að gjöra nú þegar ráðstafanir í olíumálinu, meðal annars með því, að samþykkja lög um einkasölu á vörunni. Stjórnin getur þá eigi haft þá afsökun, að hún hafi eigi vitað vilja þingsins. Sú mótbára, að landið geti átt á hættu, að verða olíulaust, ef frv. verður samþykt, er grýla ein, sem hefir engin rök við að styðjast.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. Þ.) talaði um störf þingsins. Háttvirtur þm. hefir þegar áður viðurkent, að málið sje nauðsynjamál. Jeg fæ eigi betur sjeð en að þetta mál heyri beint undir starfsvið þessa aukaþings, sem sje ráðstafanir út af ófriðnum og dýrtíðinni. Mjer finst það annars furðulegt, að menn skuli amast við þeim ráðstöfunum, sem ef til vill ljetta af landsmönnum mörg hundruð þús. kr. tapi.