04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

26. mál, landauralaun

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Það sem frv. þetta fer fram á, er svo sjálfsagt, að ekki þarf mörgum orðum um það að fara. Vil jeg þó drepa á aðalatriðin.

Þar sem um landssjóð er að ræða sem vinnuveitanda, virðist eiga að vaka fyrir honum það, sem á útlendu máli nefnist „caritas sapientis“, þ. e. að haga kaupgjaldinu svo, að að notum verði. Þar sem kaupgjald nú er reiknað eftir peningum, er því líkt farið og þegar tóan bar storkinum á grunnum diski, en storkurinn er langnefjaður og hafði því ekkert gagn matarins.

Sumir kunna að segja, að peningar sje venjulega ekki óstöðugir í verði, en jeg vil segja það, að jafnvel verðbreyting sú, er á þeim verður smátt og smátt á venjulegum tímum, ætti að vera næg ástæða til, að kaupgjald væri miðað við annað, sem stöðugra er. En einkanlega er það augljóst nú, meðan ófriðurinn stendur, og óhætt er að fullyrða, að menn hafa ekki meira en helming launa sinna við það, sem áður var. Þetta sjá menn, að ekki er „caritas sapientis“. Hitt sjá allir, að menn þurfa jafn mikils með af lífsnauðsynjum, jafn mikils til fæðis, fata, húsnæðis o. s. frv. Þá væri vissulega rjettlátara, að meta kaupgjaldið ekki eftir peningum, heldur lífsnauðsynjum. Það hjálpar ekki, þótt einhver hafi 100.000 kr. meira í laun, ef allar hans nauðsynjar eru meira en þeim mun dýrari.

Það er öllum skiljanlegt, að maður, sem rekur upp á eyðisker, er engu betur settur, þótt hann hafi miljónir kr. í gulli í kringum sig. Ekki getur hann etið gullið.

Þetta er svo augljóst, að ekki ætti að þurfa að benda á það, en sannleikurinn er, að menn taka ekki eftir því. Almenningur miðar alt við peningaupphæðir, en gætir þess ekki, að fátt er óstöðugra í gildi en þeir.

Jeg get tekið enn eitt dæmi. Karlarnokkrir í Vesturheimi, sem komist höfðu í álnir, urðu reiðir við banka þá, er ávöxtuðu fje þeirra, og tóku þeir út aura sína. Afleiðingin varð sú, að vjer hjer heima urðum að borga 9% í vöxtu af lánum vorum.

Þetta sýnir, hve gildi peninga er óstöðugt, og ekki er hægt að hafa hemil á því. Ætti það því að vera öllum ljóst, að rjettlátara væri, að miða kaupgjald við landaura.

En nú kunna sumir að segja, að þá lendi skaðinn á landssjóði. Það er líka satt. En hvort er sanngjarnara, að hann lendi á verkamanninum eða vinnuveitanda?

Verkamaðurinn getur ekki aukið tolla, nje bætt í haginn fyrir sig með lögum á annan hátt eftir vild. En landssjóður, eða Alþingi fyrir hans hönd, getur lagt á tolla og breytt verðlagi, og auið tekjur sínar með lögum eftir því, sem þörf gjörist. Yfirleitt má segja, að hann hafi öll vopn í höndum, en verkamaðurinn engin. Svo þessi mótbára fellur um sjálfa sig.

Jeg hefi ekki tekið með nema verkamenn landssjóðs, og er það vegna þess, að jeg hefi ekki viljað stíga stærra að svo komnu, enda liggja líka umkvartanir frammi frá þeim. Vona jeg, ef frv. þetta næði fram að ganga, að ekki yrði um dýrtíðaruppbætur að ræða eftir á, því að þá ætti mönnum að vera kostur á, að fá nauðsynjar sínar, þrátt fyrir það, þótt peningar falli í verði.

En aðalvandinn er, að reikna núverandi laun í landaurum. Þá verður að taka meðaltal frá vissum árafjölda. Jeg tilnefndi 20 ár, en sá tími er ef til vill of stuttur, þegar þess er gætt, að peningar hafa stöðugt fallið í verði síðan fyrir aldamót, og launin gætu því orðið of lág. Alveg eins mætti taka 30 ár. Þá væri líka ef til vill rjettara um yngri embættismenn, að miða við meðaltal af vissum árafjölda heldur en embættisár.

Þetta mun vera hægur vandi fyrir þá, er við slíkt fást, en jeg hafði ekki tíma til slíkra reikninga.

Í frv. er líka gjört ráð fyrir að hagstofan taki reikninga þessa til meðferðar.

Menn sjá, að þetta er ekki nema sanngjarnt. Sýnir það viturleik forfeðra vorra, að taka ekki þann verðmæli, sem er svo óstöðugur og reikull, sem peningar eru. Sá eini skaði, sem landssjóður getur orðið fyrir, er sá, er leiðir af verðfalli peninganna. En þá ber að taka tillit til þess, að landssjóður hefir öll meðul til að bæta sjer skaða sinn, en einstakir menn engin. Jeg vildi óska, að háttv. deild vísaði málinu til nefndar, og helst þá þeirrar, er ekki telur skyldu sína að fella alt án fullrar rannsóknar, til þess eins að stytta þingtímann. Að öðru leyti læt jeg mjer hægt um, hvort deildin vill drepa málið eða ekki, því að jeg get vel þolað að standa einn uppi með rjett mál.

Annað hefi jeg ekki um frv. að segja fyrst um sinn, en vil stinga upp á því, að málinu verði að lokinni umr. vísað til allsherjarnefndar.