04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

26. mál, landauralaun

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Jeg þarf eigi að svara háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) mörgum orðum, því að hann hefir, eftir ræðu hans að dæma, misskilið eðli og tilgang frv.

Hjer er ekki um neina breytingu að ræða, heldur hitt, að launin skuli reidd út eftir öðrum mælikvarða. Það, sem jeg kvaðst ekki hafa nent að fást við, var útreikningur á meðaltali álna í síðastliðin 20 ár, og annað, er að mælikvarðanum lýtur; sjálf aðalatriði og grundvöllur þessa máls eru mjer fullljós, svo sem háttv. þm. geta sjeð af frv. og framsöguræðu minni.

Háttv. þm. ætti og að vera það ljóst, að þetta mál snertir í engu verksvið launanefndarinnar. Hún átti að gjöra tillögur um breytingu á launum starfsmanna, nýjar upphæðir; en hjer ræðir um það, að upphæðir þessar skuli reiknast í landaurum í stað peninga. Því getur þetta þing ráðið til lykta nú þegar. Þegar svo næsta þing samþykkir önnur laun, er þegar með þessum lögum ákveðið, að þau skuli goldin í landaurum. Mjer finst helst svo, sem hv. þm. leiti sjer að ástæðum til að sálga frv. þessu.

Þegar það er fram borið sem ástæða, að þingið sje á enda, er það vafalaust sagt í spaugi. Það væri kynlegt, ef menn kæmi langa leið með ærnum tilkostnaði landsjóðs, og færi aftur, þegar 10 dagar væri liðnir af hinum eiginlega starfstíma þingsins. Vegna þess að 1/4 allra þm. töfðust, og gátu eigi komið á tilteknum tíma, má það vera öllum ljóst, að útilokað var að gjöra mikið fyrir jól, annað en ræða um samkomulag um nýja stjórn. Það væri leiðinlegt til orðs, ef þingmenn gjörðu ekkert annað en búa til þrjá ráðherra, og færu síðan heim til búa sinna í flýti. Jeg sje ekki betur en að allur janúarmánuður sje heimtur til starfa af þinginu. Mig minnir, að við samning þingskapa á síðasta þingi, væri lögð rík áhersla á það, að nú væri settar fastanefndir, er vandlega skyldu ræða málin. Þessi ferð þingmanna á þingvöll verður dýr, ef störfin verða hroðvirknislega unnin. Jeg get því alls eigi viðurkent, að þetta sje nein ástæða móti málinu. Jeg tel málinu eigi of gott að koma fyrir nefnd. Komist nefndin að sömu niðurstöðu og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), getur hún samþykt rökstudda dagskrá.

Skal jeg svo ekki orðlengja frekar um þessa ræðu háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.), því að nú kem jeg að hinum ógnarlega hv. 2. þm. Rang. (E. J.), sem er að leiða spáspakar getur að því, hvernig jeg ræki starf mitt. Jeg er viðbúinn að segja þessum óhemju háttv. þm. (E. J.), hvað jeg hefi kent, ef hann treystir vitsmunum sínum til að skilja það. Sjálfsagt er er hann ekki góður í grískunni. Þó nenni jeg ekki að lesa fyrir hann ????????; hann er líklega kominn lengra.