08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

30. mál, lán til flóabáta

Framsm. (Þorsteinn Jónson):

Nefndin hefir reynt að gjöra ráðstafanir til þess, að bæta samgöngurnar eftir megni. En hún gekk jafnframt að því vísu, að hún gæti eigi fullnægt samgönguþörfinni til fulls. Hygg jeg, að þann veg sje það um svæðið, sem hv. þm. S.-Þ. (P. J.) gat um, svæðið frá Gunnólfsvík til Eyjafjarðar, að þar sje eigi öllum þörfum fullnægt. En jeg býst við, að enginn geti eftir tillögum þeim, sem nefndin sá sjer fært að gjöra, talið sjer að öllu leyti fullnægt, hvað samgöngur snertir. Vjer nefndarmenn höfðum einmitt þetta svæði í huga, og töldum það að engu verða ver úti en önnur, ef strandferðaskipið væri látið koma á allar þær hafnir, sem þar er um að ræða. Standa allar þær hafnir, er þar eru, á áætluninni að því er jeg hygg, og tel jeg því, að þolanlega sje fyrir þessu svæði sjeð, þótt skipið komi eigi í hverri ferð á allar hafnirnar. Enn fremur hefir það áður verið tekið fram, að til þess er ætlast, að Austfjarðabáturinn gangi stundum norður fyrir Langanes. Þá veit jeg ekki betur en styrkur sje ætlaður til báts þess, er gengur um Eyjafjörð og fer alt til Húsavíkur. Hann ætti að geta komið á hafnirnar í Suður-Þingeyjarsýslu. Jeg vil láta þess getið, að jeg hygg enga samgöngumálanefnd Alþingis hafa ráðist í meira en þá, sem nú starfar á þessu þingi. Hún vill ráðast í kaup á strandferðaskipi og 2 stórum flóabátum. Jeg býst við því, að hvorki samgöngumálanefndin nje háttv. deild muni sjá sjer fært að ganga lengra en nefndin hefir þegar gjört.