08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

30. mál, lán til flóabáta

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) kvað betur sjeð fyrir Austfjörðum en höfnunum í Þingeyjarsýslu. Hjer er ólíku saman að jafna. Á Austfjörðum er flutningaþörfin margfalt meiri en t. d. í Norður-Þingeyjarsýslu. Jeg hefi áður sýnt fram á flutningaþörfina á Austfjörðum. Í Norður-Þingeyjarsýslu er strjálbýlt og fiskveiðar og sjávarútvegur lítill.

Háttv. þm. Barð. (H. K.) ljet í ljós óánægju sína yfir undirtektum mínum undir styrk til fjarðabáts vestra. Nefndinni þykir sem talsvert mikið hafi verið hugsað fyrir Vestfjörðum. Um Breiðafjarðarbátinn hefi jeg áður talað.

Nefndin hefir enn fremur gjört ráð fyrir því, að Húnaflóabáturinn muni ganga til Ísafjarðar við og við.

Nefndin getur ekki tekið til greina till. háttv. þm. Barð. (H. K.) og háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó ). En hún lítur svo á, að ef svo langt á að fara, að öllum sje fullnægt, sem kröfur þykjast geta gjört, þá virðist best að ónýta þetta, sem hún hefir gjört og er að gjöra, og koma á fullkomnu kerfi, sem enginn hafi neitt við að athuga. En þar eð þetta eru neyðartímar, er ekki hægt að ganga þessa leið. Annars er jeg því fylgjandi, að málið sje tekið út af dagskrá svo að þeir, sem óánægðir eru, geti hugsað sig um og rætt við nefndina, og komi fram sanngjarnar ástæður af þeirra hálfu, mun jeg ekki leggja á móti því, að tekið sje tillit til þeirra.