10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Sveinn Ólafsson:

Jeg stend hjer ekki upp til þess að skemta mönnum með langri ræðu. Er jeg fyrst og fremst ekki fær til þess, og tel auk þess vafasama skemtun að hinum löngu ræðum, sem hjer hafa verið fluttar.

Jeg álít það algjörlega rjett tekið fram hjá háttv. flutnm. till. (M. G.), að það sje sama „principið“, sem fyrir honum hefir vakað og fjárveitinganefndinni. En að tillagan hlýtur svo ómilda dóma, bæði hjá öðrum og einkum hjá framsm. nefndarinnar (G. Sv.), er ekki sprottið af hugsun þeirri, sem í henni liggur, heldur einkum af því, að hún kemur á eftir aðaltillögunni. Og liggur það auðvitað í því, að háttv. framsm. á svo erfitt með að átta sig á henni á meðan hann er að hugsa um aðaltillöguna og finna henni alt til vegsauka, lofs og dýrðar. En ánægja er mjer að heyra það, að þrátt fyrir allan þenna skoðanamun, eru þó allir að leita að hinu sama, að reyna að finna meira og meira rjettlæti, til þess að hafa að mælikvarða fyrir dýrtíðaruppbótinni. Þetta hefir verið rauði þráðurinn í öllum umræðunum, að reyna að finna leið, svo að þeir, sem uppbótar þyrftu, mistu ekki af henni, en hinir, sem ekki þyrfti hennar, fengi ekki.

En auk þessa ánægjulega atriðis í umræðunum, hefi jeg orðið var ýmislegt, sem jeg get eigi felt mig við. Eru það einkum ýms atriði í ræðu háttv. framsm. (G. Sv.), sem mjer virðast óviðfeldin. Kallaði hann niðurlag tillögunnar handaskömm. Slík og þvílík ummæli eru ekki nema slagorð. Jeg finn ekki, að það sje að nokkru leyti óviðurkvæmilegt, að heimta af mönnum skýrslu að viðlögðu drengskaparvottorði. Sama hefir áður verið tekið fram, en jeg legg áherslu á það af því, að háttv. framsm. (G. Sv.) kvað svo ríkt að orði.

Undir orðið einhleypur falla mjög margir, að jeg hygg. Þar geta heyrt undir símþjónar, kennarar, enn fremur ýmsir prestar til sveita og skrifstofuþjónar í kaupstöðum. Aðalatriðið er rjettlætisgrundvöllurinn. Þessi hugsun vakir fyrir öllum, og þessi tillaga finst mjer fara einna næst hinu rjetta af því, sem enn er fram komið í þessu máli. Því nær, sem komist verður þörfum þeirra, sem uppbótina eiga að fá, því sanngjarnari verður útbýtingin. Ef þessi till. á þgskj. 132 yrði feld, gæti vel farið svo, að alt þetta mál strandaði.