10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Sveinn Ólafsson:

Þegar jeg bað um orðið, þá var það til þess, að svara fyrirspurn háttv. þm. Stranda. (M. P.) um það, hvort átt væri við brutto eða nettótekjur. Nú hefir verið minst á þetta atriði síðan, svo að jeg skal leiða hjá mjer að fjölyrða frekar um það. Annars tekur till. af allan misskilning í þessu efni. Þar er svo ákveðið, að uppbótin færist niður um 2/5 hjá öllum einhleypum mönnum, er dýrtíðaruppbótar njóta, og svo hjá þeim, er hafa framleiðsluatvinnu á sjó eða landi, eignum eða öðru, svo að nemi 600 kr. á ári eða meira, auk kostnaðar, og 1.500 kr. settar sem hámark. Hjer er í því átt við nettótekjur. Flestir skilja þetta líka svo. Margir voru áður á gagnstæðri skoðun, en hafa nú komist að þessari niðurstöðu við nánari athugun á þessu atriði. (Hákon Kristófersson: Vill þm. skýra skilmerkilega, hvað hann á við með nettótekjum?). Jeg er ekki svo orðhagur maður, að jeg geti fundið íslenskt orð yfir þetta hugtak. En með nettótekjum á maður venjulega við þær tekjur, sem maðurinn hefir að frádregnum öllum kostnaði.