10.01.1917
Neðri deild: 20. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

42. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslunnarmönnum landssjóðs

Einar Jónsson:

Jeg hafði naumast ætlað mjer að tala framar í máli þessu, en það eru fyrirbrigði undarleg og sjerstaks eðlis, sem valda því, að jeg bið mjer hljóðs nú. Jeg hefi nefnilega tekið eftir því, að það eru til nýir þingmenn hjer í deildinni, sem hafa haft sig í frammi meira en góðu hófi gegnir og skikkanlegt er. Jeg hefi tekið eftir því, að hv. framsm. (G. Sv.) hefir haldið stundarlangar tölur til þess, að halda hlífiskildi fyrir ágæti meginreglunnar í nál., og þrátt fyrir þær löngu tölur og lagahnykki er auðvitað nefndarálitið jafn nakið og mannsbert. Og jeg hefi líka tekið eftir því, að l. þm. Reykv. (J.B.)hefir ungæðislega og ósæmilega tafið hv. þingdeild í 2 klukkutíma með því, að segja þó bókstaflega ekki neitt. Og það er eina atriðið í ræðu hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), sem nokkurs er nýtt, og auðvitað allir vita, að einhleypir menn þurfa eigi eins mikið undir vanalegum kringumstæðum og barnmargir fjölskyldumenn. En til þess að segja þetta hefði hann ekki þurft að þreyta deildina í 2 klukkutíma. Skal jeg svo ekki fara fleirum orðum um þenna hv. þingmann. En þegar jafnfróður, gildur og góður þingmaður, eins og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) er, gjörir sjer far um að eyða dýrmætum tíma þingsins með mælgi og lagahnyttyrðum, sem málfærslumönnum eru töm, þá get jeg eigi stilt mig um að láta í ljós verðuga vanþóknun mína á slíkum fyrirbrigðum, og má hver lá mjer það sem vill. Jeg hefi ekki tafið þingið með löngum og óþörfum ræðum, þótt jeg sje eldri þingmaður en þeir; en þessa skoðun mína vildi jeg lofa þeim að heyra, jafnvel þó að jeg verði má ske aldrei eins mikill þingmaður og þeir geta kann ske orðið einhvern tíma; en til þess að verða það, gæti jeg trúað að þessi mikla mælgi þeirra verði þeim ekki holl eða happadrjúg.