29.12.1916
Efri deild: 8. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Magnús Torfason:

Jeg stend upp til að gjöra nokkra grein fyrir breytingartillögu á þgskj 36, þess efnis, að 3. gr. frumvarpsins falli niður, en sú grein hljóðar svo: „Landritaraembættið legst niður“.

Mjer hefir skilist svo, sem þessi 3. gr. sje lítt þörf í þessu frumvarpi, því í 2. gr. stjórnarskrárinnar, síðustu málsgrein, stendur: „Verði ráðherrum fjölgað, legst landritaraembættið niður“.

Þessi grein virðist vera beint bjóðandi, og það virðist því vera bein afleiðing af 1. gr. þessa frumvarps, er hjer liggur fyrir, að landritaraembættið leggist niður. Með samþykki þessarar gr. sje landritari sjálfdauður. Mjer virðist því með öllu óþarft að hafa þessa 3. gr. í frv. Það er að leggjast á náinn, og þótt það geti ekki skaðað þann, er fyrir því verður, þá getur það þó hins vegar orkað þeim tvímælis, er verkið fremur.

Jeg skal hins vegar játa það, að það ætli að vera meinlaust, þó að þessi grein stæði þarna, en mjer hafa heyrst koma fram raddir í háttv. Nd. um það, að vekja mætti upp aftur landritaraembættið með einföldum lögum. En jeg lít svo á, að sú skoðun sje röng, og hún styðjist eingöngu við þessa 3. grein. Það liggur líka nærri að líta svo á, að úr því að það þurfi sjerstakt lagaboð til þess, að fella niður landritaraembættið, þá megi eins vekja það upp aftur með sjerstöku lagaboði. En það er ekki rjett.

Jeg fæ því ekki betur sjeð en að þessi grein sje fyrst og fremst gagnslaus, en auk þess jafnvel villandi, og víst er um það, að hún hefir komið skýrum og mætum lögfræðingum út á hinar örgustu villigötur.

Úr því jeg stóð upp, þá vil jeg nota tækifærið til þess, að fara nokkrum orðum um 4. málsgr. í athugasemdunum við frv. Þar segir svo: „Loks má geta þess, að stjórnin er styrkari gagnvart öðrum embættismönnum landsins, ef þrír menn skipa hana, heldur en ef að eins einn er ráðherra“.

Það virðist svo, sem þessi athugasemd gefi það í skyn, að landsstjórninn kenni vanmáttar gegn undirmönnum sínum. Væri svo, þá sje jeg ekki annað ráð þar til bóta en að auka vald landsstjórnarinnar; en með þessu frumvarpi, er henni eigi gefið neitt meira vald en verið hefir.

Jeg hefi litið svo á, að samkvæmt lögum hafi landsstjórnin fullkomið einveldi gagnvart þjónum þjóðarinnar, og jeg veit ekki betur en að þeir sitji og standi eins og hún vill, og svo að segja lifi upp á hennar náð.

Það eru að eins 3 embættismenn, er segja mætti, að væru undanþegnir þessu. Það eru dómararnir í yfirdóminum. En reynslan hefir sýnt það, að laun þeirra eru svo naumt skorin, að þeir hafa allir þurft, eða þykjast þurfa að halda á stjórnarbitum.

Ef eitthvað ætti að vera í þessari athugasemd, þá ætti það að vera það, að embættismennirnir hefðu reynst landsstjórninni of erfiðir viðfangs, en mjer fyrir mitt leyti er það ókunnugt. Jeg hefi aldrei heyrt talað um það, að embættismenn hafi staðið upp í hárinu á landsstjórninni, eða brugðist hlýðniskyldu sinni, þvert á móti heyrt þeim ámælt fyrir, að þeir væru eins og mýs undir fjalaketti stjórnaráðsins.

Það mætti ef til vill geta sjer þess til, að hjer væri miðað við einhverjar erjur innan stjórnarráðsins sjálfs, en mjer er ekki heldur kunnugt um að svo sje, enda tel jeg það líklegt, að hæstv. ráðherra hafi haft fullan húsaga heima hjá sjer, því stjórnin gjörir talsverðar kröfur um það, að aðrar stofnanir hafi góðan aga í sínum húsum.

Jeg vil því, ef í þessari athugasemd á að felast nokkur ásökun til embættismanna, um það, að þeir hafi sýnt landsstjórninni nokkurn skort á hlýðni, mótmæla því harðlega hvað mig snertir, svo og fyrir aðra að því leyti, sem mjer er frekast kunnugt.

Það hefir verið talað allmikið um ástæður fyrir því, að frv. þetta er komið fram, og nú fyrir skemstu var því haldið fram, að það væri vegna þess, að enginn þingflokkur væri í meirihluta. Jeg get vitanlega ekki sagt um það, hvað vakað hefir fyrir hverjum einstökum þingmanni, eða hverjum þingflokki öðrum en þeim, sem jeg er nánast tengdur við, en jeg vil lýsa því yfir, að frá hans hálfu er það ekki aðalástæðan. Aðalástæðan er miklu víðtækari en svo. Það sem vitanlega er aðalástæðan er það, að störf stjórnarinnar hafa aukist heljarmikið. Landið hefir á síðustu árum hækkað og stækkað, bæði inn á við og út á við, svo undrun sætir. Það lítur jafnvel svo út, sem landinu hafi hreint og beint verið gefið vaxtarmeðal, og frumvarp þetta er ekkert annað en beinn ávöxtur þessa vaxtar.

Og við eigum að hafa leyfi til þess, að vona, að ráðherraval í framtíð takist svo vel, að með þessu frv. verði mótað nýtt og gagnsamt tímabil í stjórnarfarssögu landsins.