29.12.1916
Efri deild: 9. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Sigurður Eggerz:

Það er að eins örstutt athugasemd við 3. umr. þessa máls, og er sú athugasemd aðallega af þeim rótum runnin, að raddir hafi heyrst, bæði hjer og í hv. Nd., í þá átt, að sú væri aðalástæðan fyrir fjölgun ráðherranna, að án þess hefði ekki verið hægt að mynda stjórn.

En langt er frá því að þetta hafi verið ástæðan til ráðherrafjölgunarinnar, enda vitanlegt að hægt var að mynda eins manns stjórn í þinginu. Hitt er aftur á móti kunnugt, að það hefir beinlínis legið í loftinu að fjölga ráðherrum, og fyrir nokkrum árum síðan lagði jeg áherslu á, að brátt mundi reka nauðsyn til fjölgunarinnar. Tvær aðalástæður eru fyrir því, að fjölga ráðherrum, og eru báðar veigamiklar, svo veigamiklar, að kostnaðarauki sá, sem af því leiðir, verður mjög ljettur á metunum. Fyrri ástæðan er sú, að með því fæst trygging fyrir því, að slíkt óhapp hendi ekki, að hin miklu völd ráðherrans, lendi hjá illviljuðum óhappamanni, sem misbeiti valdinu sjer í hag, en öðrum í óhag, því að alt af eru líkur til, að 3 menn „kontrolleri“ hver annan, enda ólíklegt að tómir óhappamenn veljist í stjórnina. Hin ástæðan er sú, að öllum hlýtur að vera ljóst, að þrír menn geta ýtt atvinnuvegum vorum áfram með meiri vakandi áhuga en einn maður, og haft frumkvæði í þeim málum meiri en áður hefir átt sjer stað. En öllum hlýtur að vera ljóst, hvílíkt feiknastarf er enn óunnið á atvinnumálasviðinu. Þessar tvær aðalástæður hygg jeg, að vaki fyrir þinginu með ráðherrafjölguninni. En ástæðan til að málinu er ýtt svo óvenju hratt í gegn um þingið, er stríðshættan, sem yfir landinu vofir, en sú hætta er nú svo mikil, að margra áliti, að talið er rjett, að skipa ýmsum ágreiningsatriðum flokkanna lægri sess en ella skyldi. Og því hefir það ráð verið tekið, að þrír aðalflokkar þingsins mynduðu stjórnina. Þar sem því stjórnin er mynduð af mönnum með gjörólíkum skoðunum á ýmsum stórmálum landsins, þá sjá allir, að hjer er að eins um bráðabirgðastjórn að ræða, sem ætlað er aðallega það hlutverk, að bjarga landinu út úr stríðsvandræðunum. Hitt er aftur stór misskilningur, sem bólað hefir á hjá ýmsum, að á venjulegum tímum verði stjórnin mynduð af andstæðum flokkum. Vitanlega verður stjórnin þá mynduð að eins af einum flokki, ef hann er nógu stór, eða þá af pólitískum flokkum, sem samstæðir eru að skoðun. Hitt, að pólitískir andstæðingar gangi saman í stjórn, eru og verða að eins undantekningar, sem bygðar eru á algörlega sjerstökum kringumstæðum. Enda ljóst, að á venjulegum tímum mundi allra flokka stjórn springa, ef stórmáli væri varpað inn í þingið, sem ágreiningur væri um hjá stjórninni, eins og t. d. járnbrautafrumvarpi.

Ummæli hv. þm. Ísf. (M. T.) um, að embættismenn gagnvart stjórninni sje eins og mýs undir fjalaketti, virðist mjer síst vel viðeigandi, enda hygg jeg, að alment skjálfi þeir ekki fyrir fjalaketti stjórnarinnar. Hitt er annað mál, að embættismönnum ber að sýna hverri stjórn sjálfsagða kurteisi, eins og stjórninni ber að sjálfsögðu einnig að sýna þeim og öðrum.