12.01.1917
Efri deild: 20. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

47. mál, bann við sölu og leigu skipa úr landi

Magnús Kristjánsson:

Jeg held nú satt að segja, að þessi ótti sje á litlum rökum bygður. Jeg veit ekki hvers konar taugaóstyrkur hefir gripið suma hv. þingmenn, er þeir þykjast allsstaðar sjá grýlu, og halda, að alt sje á heljarþröminni fyrir ráðleysi manna og það þeirrar stjettar, sem lyft hefir þessu landi á hærra menningarstig en nokkur önnur stjett í landinu.

Jeg þarf auðvitað ekki að nefna mörg dæmi í þessu sambandi því til sönnunar, að hefðu slík lög sem þessi gilt hjer í landi að undanförnu, mundu þau hafa orðið til stórtjóns. En ef það er hins vegar meiningin, að þetta verði að eins lög, sem aldrei verði fylgt í framkvæmdinni, þá sje jeg ekki til hvers verið er að samþykkja þau.

Jeg vil biðja háttv. þingmenn vel að athuga það, að fyrir fáum árum voru seldir hjeðan margir gamlir fúadallar. Og hvað höfum við svo fengið í staðinn?

Við höfum fengið ný og góð skip, sem fullkomlega samsvara kröfum tímans; skip, sem fullnægja öllum þeim kröfum, sem hægt er að gjöra til góðra skipa; skip, sem eru fær um að mæta úfnum sjó, en þess er oss brýn þörf, þar sem sjór er hjer oft úfinn og óþægur. Við verðum að hafa svo góð skip sem framast er hægt, svo að mannslífunum sje sem minst hætta búin.

Og þess vegna verðum við að geta selt þau skip, sem gömul og úrelt eru, og fá ný og góð skip í staðinn. En á þetta leggur frv. hömlur.

Jeg hygg, þótt jeg sökum naumleika tímans eigi vilji tefja hv. deild með því, að það sje fullhægt að sanna, að það sje fult svo skaðlegt, að frv. nái fram að ganga, sem að það sje felt.

Og það er engin þörf þessara nauðungarlaga, og það allra síst á þessa stjett, er hefir margsýnt hyggindi sín og dugnað, og stórauðgað þjóðarbúið hin síðari árin.