31.08.1917
Neðri deild: 48. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1280 í B-deild Alþingistíðinda. (1028)

64. mál, tollalög

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Þetta frv. er nú komið hingað aftur frá háttv. Ed. svona stórlimlest, eins og menn geta sjeð. Það er ekki ný bóla, þótt svona hafi farið, þar sem háttv. Ed. virðist hafa tekið þá stefnu að fella öll eða flest þau frv., sem miða að því að auka tekjur landssjóðs.

Það komu fram nokkur mótmæli móti þessu frv., er það var til umræðu hjer í háttv. deild, aðallega út af því, að öltollurinn var hækkaður, og ein rödd hreyfði mótmælum gegn hækkun tóbakstollsins. Mjer þykir það dálítið einkennilegt, að í nál. Ed. er það viðurkent, að rjettara sje að tolla þessar vörur heldur en nauðsynjavörur. Hjer er því einungis um það að ræða, hversu tilfinnanlega hækkunin kemur niður. Af því að hjer er um talsvert mikla upphæð að ræða, alt að 100 þús. kr. eftir innflutningi 1916, þá skyldi maður ætla, að ástæður, sem færðar eru fram móti þessu, væru talsvert mikilvægar. Aðalástæðan sem hjer kom fram, var sú, að fátækir menn sem hefðu vanið sig á tóbak gætu ekki verið án þess, og gætu ekki borgað það með þessari hækkun. En þá er að athuga, hvort þessi verðhækkun myndi koma svo afskaplega þungt niður.

Ef gert er ráð fyrir því, að hver maður sem tóbaks neytir, eyði um 8 pundum á ári að meðaltali, sem mun ekki mjög fjarri sanni, nemur tollhækkun af því 4 kr. á ári.

Það verður nú naumast litið svo á, að hver maður, sem annars getur framfært sig sjálfur, komist ekki yfir það að borga þessar 4 kr. Og hvað þá snertir, sem eru á annara framfæri, þá hygg jeg, að hvorki einstakir menn nje sveitarfjelög ljetu sig þetta muna.

Það getur því naumast til þess komið, að menn þyrftu að spara við sig lífsnauðsynjar til þess að hafa tóbakið. En þótt svo væri, þá má líta á það, að svo virðist, sem það gæti engum orðið skaðlegt að draga af sjer fyrir þessari upphæð, þar sem það á daglegum nauðsynjum gæti ekki munað nema röskum 1 eyri, og sjá allir, að slíkt er ekki tilfinnanlegt. Jeg held, að niðurstaðan yrði því sú, að menn mundu nota tóbak alveg eins eftir sem áður, og, eins og jeg hefi sýnt fram á, þá munar það sáralitlu, fjárhagslega sjeð. Nefndin telur þessa leið vera þá rjettustu, og hefir því leyft sjer að bæta þessum lið aftur inn í frv., og væntir þess, að háttv. deild samþykki hann.