07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

72. mál, hagnýt sálarfræði

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg skal ekki vera margorður nú um frv. þetta. Bæði fór jeg um það nokkrum orðum við 1. umr., og svo er það rakið í höfuðdráttunum í nál., svo að nú mun það ljóst, er menn hafa eigi áður vitað. Skal jeg þó nú fara nokkrum orðum um 2 höfuðgreinar frv.

1. gr. mælir svo fyrir, að stofnað skuli kennaraembætti í hagnýtri sálarfræði við Háskóla Íslands, og bundið við nafn þess manns, sem þar er nefndur. Það er öllum kunnugt, að þessi sami maður hefir 3000 kr. styrk á ári úr landssjóði til sálarfræðirannsókna. Nú er það segin saga, að hann mun halda rannsóknum þessum áfram, þótt eigi verði hann prófessor við Háskóla Íslands. Mundi hann því engu tapa við synjun embættisins, nema þeirri ánægju að flytja sína fyrirlestra á rjettum stað og eiga vísa von áheyrenda. Ágóðinn er allur Háskólans megin. Ef hann er gerður að kennara, er hann skyldur til að flytja fyrirlestra um þessi efni. Á því græðir Háskólinn ágæta kenslukrafta, og jeg gæti trúað því, að áður langt liði kæmi eitthvað það fram í starfi þessa manns, er gæti orðið Háskólanum til sóma, og svo ung stofnun má ekki fara á mis við neinar vonir þess. Þörfin fyrir slíka kenslu er mikil, og sjerstaklega vil jeg taka það fram, að það er ætíð miklu tryggara, ef landið vill halda góðum starfsmönnum, að festa þá við einhverja stofnun, svo að þeir sjeu ekki í lausu lofti. En ef maðurinn á að lifa á lausri styrkveitingu, er ætíð miklu hættara við, að hann taki góðum tilboðum annarsstaðar að og fari af landi burt. Hitt er bæði tryggara og meiri sómi, að vera kennari við háskóla, en að hafa lausa styrkveitingu.

Í 2. gr. er talað um háskólakenslu þá, sem hann á að hafa á hendi, auk rannsókna þeirra, er honum er ætlað að starfa að. Þar undir má heimfæra margar greinar sálarfræðinnar.

Þar er t. d. uppeldisfræði, sem er náskyld slíkum rannsóknum. Í þeirri grein er engin kensla nú, engar kenslubækur, og því full þörf á manni, er samið geti kenslubækur til afnota við kennaraskóla þá, er hjer verða.

Annað er fagurfræði (æsthetik). Þar heyra til svipaðar rannsóknir, hlutföll á allskonar listategundum, hlutföll lita t. d. og hvernig þeir verka á sjerstaka menn undir vissum kringumstæðum. Annars er þetta svo flókið mál, að langrar útskýringar þyrfti. Gæti hann haldið nokkra fyrirlestra um það efni; væri það bæði þarflegt og skemtilegt.

Þá er sálarfræði fjelagslífsins (social psykologi), sem nú er að verða allmerk grein. Hún fæst við fyrirbrigði í fjelagslífinu, og með hverjum meðulum sálaröflin starfa þar. Má þar við tengja þjóðaruppeldi.

Fyrir guðfræðinga væri gott að fá sálarfræði trúarbragðanna. Þau eru jafnan eins, og þau hafa verið mikill liður í sálarlífi þjóðanna. Er það mjög nauðsynlegt að vita, hvernig þau verka í sálarlífinu, og hverjum lögmálum þau lúta og hvernig hvert sjerstakt lögmál gildir. Ef til vill hefði verið minna um trúarbragðastyrjaldir á liðnum öldum, ef mönnum hefðu verið þau lögmál kunn.

Þá kæmi lögfræðingunum vel glæpasálarfræði (kriminal psykologi). Það er afarnauðsynleg grein, og ómissandi fræðsla í henni við hvern háskóla handa þeim mönnum, er ætla að verða dómarar. Sama er að segja um sálarfræði vitnaleiðslunnar (psykologi der Aussage). Hversu oft er valt að byggja á framburði vitna, eins eða tveggja. T. d. gæti það verið mjög athugavert að dæma mann af lífi eða æru eftir sögusögn tveggja votta. Að ummælum háttv. sessunauts míns (M. Ó.) fyrir skemstu má marka það, hve lítið menn oft geta lagt upp úr sögusögn annara. Enda sýnir sig oft í öllu þessu, að miklu getur valdið minnisskekkja eða röng eftirtekt. Væri gott, ef hægt væri að fræða menn, einkum dómaraefni, um lögmál um slíka hluti.

Þá má nefna athuganir á geðveikum mönnum. Læknar, sem við þá hluti fást, þurfa ekki einungis læknisfræðilega, heldur og sálarfræðilega, kenslu, og þá kæmu slíkar athuganir í góðar þarfir.

Nú hefi jeg talið upp ýmsar greinar sálarfræðinnar, þeirrar er jeg áður leyfði mjer að nefna eina grein náttúrufræðinnar.

Rannsókn allra greina heimspekinnar er svo mikið verk, að enginn einn maður getur unnið að því öllu, allri sálarfræði, og allri heimspeki, sem er margar mismunandi greinar. Jeg get þessa til þess, að mönnum verði skiljanlegt, að þótt kennari sje til í heimspeki áður, hefði þó þessi maður yfrið nóg að starfa. Hver þeirra 7 greina, er jeg áður nefndi, væri nægilegt æfistarf einum manni, ef rannsakað væri út í æsar. Væri því ástæða til að ætla þetta ekki einum manni, heldur fleirum. Þessi vísindi eru sem nokkurskonar sólarupprás í þekkingu manna. Því að það er rjett, sem Bjarni Thorarensen sagði:

»Þótt tungla teljir klasa,

sem tindra um himinbaug,

getnaðarlimu grasa,

og gastegundir í haug,

vitir alt, er varðar mig,

þann jeg kalla þekkja lítt,

sem þekkir ei sjálfan sig.«

Einmitt í þekkingu manna á sjálfum sjer og meðvitundinni, er stýrir líkamshreyfingunum, er mönnum mjög ábótavant. Þar eiga endurbæturnar að byrja, og ekki síður á því, er snýr að líkamshreyfingunum, en öðru.

Þetta vildi jeg segja alment um starfssvið þessa manns sem háskólakennara. Og ef hann er gerður að háskólakennara, á Háskólinn heimtingu á, að hann verji öllum þeim tíma, sem hann hefir afgangs frá aðalstarfi sínu, rannsókn vinnubragða, til athugana á þeim sviðum, er jeg áður nefndi.

Auk þessa er honum einnig gert að skyldu að hafa með höndum vísindalega rannsókn á vinnubrögðum, eins og hann hefir nú. Eins og allir vita hefir hann skrifað bók um vinnuna, sem hefir mikinn fróðleik að geyma handa öllum, en sjerstaklega handa þeim, sem lítið hafa getað sett sig inn í verkefni það, sem hann hefir fyrir höndum. Nú er hann að rannsaka vinnubrögð við slátt. Hefir hann 15 menn til rannsóknar, og skrásetur aldur hvers um sig, hæð, aðstöðu og handtök við vinnuna, vinnuhraða o. s. frv. Hjer fyrir framan mig liggur tafla, sem sýnir, hvernig þessar rannsóknir eru gerðar. Er ekki til neins að lesa alt upp, sem á töflunni stendur, en rannsóknin fer þannig fram, að hverjum manni er mældur út 1 ha. af slægjulandi, og rannsakað, hve lengi hver sláttumaður er að slá þetta land, og nákvæm skýrsla gefin um aðstöðu, handtök og skilyrði til vinnunnar hjá hverjum fyrir sig. Niðurstaðan er sú, að þeir fljótustu slá blettinn á liðugum 7 stundum, en sá seinasti á 28 stundum. Hjer er hægt að rekja eftir tölunum, hvernig vinnubrögðin eru og hvern árangur hverjir tilburðir um sig gefa. Þegar þessum athugunum er lengra komið og tilraunir gerðar, ekki að eins á þessum mönnum, heldur mörgum fleirum, og þegar búið er að draga allar þessar rannsóknir saman í eitt kerfi, þá er full von um, að hægt verði að draga út af þeim ábyggilega ályktun um það, hvernig haga skuli vinnunni, til þess að árangurinn verði sem bestur. Verk þetta er, eins og menn sjá, mjög tafsamt og vandasamt, en með tíð og tíma er hægt að gera sjer von um mikinn árangur. Við tilraunir þessar hefir honum dottið í hug að nota orf, sem hægt er að stytta, lengja og steypa með skrúfum, til þess að geta rannsakað nákvæmlega, hvaða orflag og steyping reynist best fyrir hvern sláttumann. Jeg tek þetta fram til dæmis, til þess að menn fái dálitla hugmynd um, hversu seinlegt það er og vandasamt að gera þessar tilraunir, til þess að menn búist ekki við því, að strax verði sett fram ákveðin lögmál, eða vinnubrögðunum umsteypt á skömmum tíma. En jeg segi þetta líka til þess að sýna, hve mikil nákvæmni er viðhöfð við rannsóknirnar. Alstaðar, þar sem rannsóknum hefir verið beitt í heimi vísindanna, hefir eitthvað nýtt komið fram í dagsljósið. Nú er það þessi greinin, sem er að renna upp eins og nýr morgunroði yfir löndin, og er gleðilegt til þess að vita, að vjer skulum eiga á að skipa þeim manni, sem getur gert oss aðnjótandi þeirra gæða, sem vísindagrein þessi ber með sjer. — Jeg hefi enga ástæðu til að segja meira að sinni, en vænti þess, að háttv. deild láti málið ganga óhindrað áleiðis.