06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1117)

74. mál, sveitarstjórnarlög

Bjarni Jónsson:

Það er mjög rjett, sem háttv. fram. (E. Árna.) segir, að það væri hjákátlegt að greiða þetta gjald eitt í landaurum, en þessi brtt. gæti þó gefið nefndinni tækifæri til að íhuga, hvort ekki sje rjett að breyta og ákveða landauragjald, í stað peninga, fyrir alla vinnu í hjeraðanna þarfir. Síðast er jeg fór um sveitir, ferðaðist jeg um 3 eða 4 kjördæmi, og hitti marga menn að máli. Kom öllum saman um, að starfsmenn hjeraðanna fengju óþolandi litla borgun fyrir störf sín, eftir verði peninga nú. Virtust allir sammála um, að nú sæist þess ljós vottur, að landaurareikningur bæri vott um mikla vitsmuni forfeðra vorra. Þar liggur til grundvallar sú rjetta og margsannaða hugsun, að lífsnauðsynjar eru sama sem altaf í jöfnu gildi, þ. e. þörfin fyrir fæði og klæði ætíð jöfn. Hvort þær kosta fleiri eða færri krónur fer eftir því, í hvaða verði krónan stendur. Því eru landaurar sem verðmælir bygðir á rjettri hugsun. Þarf ekki að blanda saman verðmiðli og verðmæli. Ef verðmælirinn er stöðugur, gerir ekkert til, þótt verðmiðillinn breyti gildi. Mjer stendur á sama, hvort jeg fæ 12 kr. eða 24 kr. til að kaupa einhvern hlut, ef jeg. einungis get fengið hlutinn. Munurinn er einn sá, að gjaldmiðill er í mismunandi verði. Gefst nú háttv. nefnd færi á að sýna, að frændur sjeu ekki frændum verstir, og bændur ekki bændum verstir, einmitt er um gjald er að ræða fyrir þessi störf, er þeir þekkja best.

Alt þetta mál er samanhangandi, frá lægstu launum til hæstu. Launin eru misjöfn að upphæð, en mega ekki vera mismunandi frá ári til árs. Eins er þegar ræða er um skifti landssjóðs við verkamenn sína. Þar þarf að miða við eitthvað, sem breytir ekki gildi frá ári til árs, og taka fult tillit til sóma landsins.

Ef ákveða skal kaup eftir öðru en því, sem rjett er og sómasamlegt, þyrfti að fá aðra ráðsmenn fyrir það bú, sem vilja hafi að kippa í lag. Læt jeg því nú till. þessa ganga til atkv., að jeg vil sjá, hversu ráðsmenn þjóðarbúsins vilja gæta sóma húsbóndans. Jeg skal taka það fram, að ekki myndi standa á mjer til að samræma þessar greiðslur við aðrar, og fylgja frv. um að greiða alt eftir verðlagsskrá. Það er rjett, sem hv. frsm. (E .Árna.) gat um, að gallar eru á verðlagsskránni í einstökum atriðum, og skal jeg játa, að jeg hafði það ekki í huga, en átti við meðalverð allra meðalverða um land alt. En vjer hjer á þingi megum ekki tala altof hátt um, hve ónýt plögg verðlagsskrárnar sjeu. Það er nokkuð mikið sagt gagnvart þeim, er þær semja. Jeg skal ganga inn á, að hún verður skökk af því, að á henni eru vörur, sem eru ekki lengur verslunarvörur, og fleiri tegundir en þarf, Þetta gerir skekkju, en þegar þar á móti kemur, að sumir vilja hækka, en aðrir lækka meðalverðið; þá verður meðalverð allra meðalverða ekki langt frá rjettu.

Jeg vil skjóta því til háttv. nefndar, hvort hún sjer ekki fært að samrýma það við 3. umr. og ákveða, ef unt er, landauragreiðslu fyrir öll svipuð störf í þarfir sveitarfjelaga og sýslufjelaga. Jeg ætla annars ekki að fjölyrða um landauragreiðslu yfirleitt að þessu sinni, býst við að fá tækifæri til þess síðar, þegar til umr. kemur frv. um það efni, sem jeg flyt hjer í deildinni.