06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

74. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg ætla ekki að deila um það, hvort heppilegt sje að greiða laun embættis- og sýslunarmanna landsins yfirleitt eftir verðlagsskrá. Það gæti ef til vill komið til mála, ef verðlagsskrá sú, er launin yrðu reiknuð eftir, væri á rjettum grundvelli bygð. En hjer er dálítið öðru máli að gegna. Mjer skildist á háttv. þm. Dala. (B. J.), að hann ætlist til, að laun þessi verði miðuð við þá verðlagsskrá, sem gildir nú. Jeg hygg, að það verði önnur verðlagsskrá, sem lögð verður til grundvallar launum embættismanna, þegar farið verður að reikna þau í landaurum. En ef það er tilgangurinn að taka nú þegar upp þá stefnu, að reikna laun fyrir öll opinber störf í landaurum, þá kemur þetta heldur seint fram, þar sem nýlega er gengið í gegnum deildina frv. til laga um breyting á launum hreppstjóra o. fl., og þá kom þetta ekki til greina. Mjer finst því ekki nein frekari ástæða til að taka þá stefnu upp við þetta mál.