08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

74. mál, sveitarstjórnarlög

Sveinn Ólafsson:

Það er ekki hægt að telja það neina stórbreytingu, sem jeg ber hjer fram, en hún lýtur þó að sparnaði, því að hún mundi geta sparað hverju hreppsfjelagi hátt upp í 100 kr., í samanburði við það, sem frv. ætlast til. En alls mundi aukning sýslusjóðsgjaldsins nema á annað hundrað krónur fyrir hvern hrepp, verði frv. samþykt óbreytt.

Má vera, að með sanni megi segja, að sýslunefndarmönnum verði vangoldið, í samanburði við ýmsa aðra, fái þeir eigi nema 5 kr. á dag. En þar er þó tvenns að gæta. Störf þeirra falla að jafnaði á vetrartímann, og í öðru lagi hefir mjer fundist, að hreppunum þætti fullerfitt að inna af hendi sýslusjóðsgjald sitt, eins og það er nú, og hvað mundi þá verða, ef það hækkaði að miklum mun, og jeg er ekki viss um, að þeir mundu taka því þakksamlega, að sýslusjóðsgjöld væru hækkuð á þeim að þeim fornspurðum og að óþörfu, en að óþörfu tel jeg það gert, þar sem jeg veit ekki til, að farið hafi verið fram á hækkun á nokkrum þingmálafundi.

En það var ekki eingöngu tillit til aukins kostnaðar, sem kom mjer til þess að bera fram brtt. Það er önnur hlið málsins, sem mjer finst ekki minna um vert. Hjer er gengið inn á þá braut, sem mjer finst alt annað en viðfeldin, þá braut, að fækka þeim störfum, sem hingað til hafa verið unnin kauplaust eða kauplítið fyrir sveitarfjelögin, og þar af leiðandi fyrir þjóðfjelagið, og farið að launa þau fullum launum.

Mjer finst hjer oflangt gengið í smámunalegri heimtufrekju og auragræðgi smeygt inn fyrir ósjerplægni. Mjer finst þetta líkt því, sem verið sje að ráðast á hina alkunnu íslensku gestrisni, sem ekki vildi heyra nefnt gjald fyrir greiða. Þótt svo kunni að vera, að einhver sýslunefndarmaður hafi ekki sloppið alveg skaðlaus við einhverja sýslufundarferð, þá er það ekki nægilegt tilefni til að fara að hækka alment kaup sýslunefndarmanna fyrir það svona freklega. Jeg verð að halda því fram, að dagkaup það, sem brtt. ætlar sýslunefndarmönnum, sje yfirleitt sómasamlegt, og að 5 kr. á dag muni að jafnaði nægja þeim að vetrarlagi.

Jeg hefði helst kosið, að frv. hefði alls ekki komið fram. En úr því að það nú hefir verið flutt inn á þing, þá hefi jeg neyðst til að bera fram brtt. þessa, þótt í óþökk flutningsmanna sje. Því er svo varið með þetta frumvarp, eins og fleiri af líku tægi, sem nú er fleygt hjer inn, — svo sem frv. um kauphækkun hreppstjóra — að þau eru allsendis óþörf og ekki heimtuð af starfsmönnunum sjálfum. Þau eru bergmál af þeim sífelda jarmi um launabætur, sem á æðri stöðum hljómar, og lýsa beiningamannsins hugsunarhætti, sem ekki vill hreyfa hönd eða fót nema fyrir hæsta gjald. Slíkir menn fórna eigi heldur miklu í þarfir hjeraða sinna eða sveita.

Jeg læt mjer það að vísu í ljettu rúmi liggja, hvort brtt. mín verður samþykt eða ekki, en jeg álít þó, að fylsta ástæða hafi verið til að koma fram með hana og að hana eigi að samþykkja.