08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg vil ekki segja, eins og háttv. þingm. Ísaf. (M. T.), að jeg sje svo óheppinn að eiga hjer tvær breytingartillögur við fjárlögin. Jeg tel það hvorki hepni nje óhepni; það er gert með frjálsum og fúsum vilja, en hepni eða óhepni er ekki annað en það eitt, sem ekki er hægt að ráða við.

Jeg vil fyrst minnast á brtt. mína við 15. gr. 20. c, um að sá liður falli niður; það er með öðrum orðum, að eigi verði nú eytt 40 þús. kr. til þess að auka við byggingu þá, sem reist hefir verið uppi á Skólavörðuholtinu, fyrir hið svonefnda listasafn Einars Jónssonar.

Jeg hefi athugað það, að svo lítur út, sem fjárveitinganefndir beggja deilda hafi haft þá reglu að taka ekki upp í fjárlögin fjárveitingar til fyrirtækja, er krefjast aukins kostnaðar fyrir útlent efni, en til þessarar byggingar þarf mikið útlent efni, sement, og ef hún verður bygð nú, þarf að leggja út fyrir það fje, og viða það að landinu, og mun margt vera meiri þarfaflutningur og brýnni þörf fyrir en sement til þessa. En svo ber líka að gæta þess, að sement er nú margfalt dýrara en það hefir verið nokkru sinni áður, og væntanlega miklu dýrara en það verður í framtíðinni, svo að það er óheppilegt og fjárhagslegt tap að kaupa meira af því nú en beinlínis er nauðsynlegt. Og að þetta hafi verið stefna fjárveitinganefndanna skilst mjer vera bert, þegar litið er á það, að þær vilja láta fresta t. d. brúargerðum o. fl. slíku, er útlend efni, svo sem sement, þarf til, og ólíku þarfari eru þó brúargerðir en þetta, og rjettara að verja fje til þeirra. Jeg lít svo á, en það getur verið að það sje fáfræði, að þetta sje eitthvert hið óþarfasta verk, sem peningum hefir verið varið til nú í langan tíma, og að til fyrirtækis þessa hafi stofnað verið með lítilli, eða engri fyrirhyggju. Byrjað var á því að leggja fram 4000 kr. til þessa fyrirtækis, og var þá sagt af talsmönnum þess, að sú upphæð nægði, en nú, þegar verst stendur á, erfiðast er með fje og efni dýrast, þá er farið fram á að bæta við 40000 kr. í þessu skyni. Þetta sýnir ljósast, hversu fyrirhyggjan er mikil, og hversu rjett áætlun talsmanna þessa máls var. En svo er ekki nóg með þetta. Auk þessara fjárframlaga hafa einstakir menn verið gintir til að leggja fram stórfje til þessarar byggingar, alls 19400 kr.; eftir því sem jeg hygg, og fram kom undir umræðum málsins í háttv. Nd., þá á ekki að endurgreiða þeim neitt af fjárframlögum sínum af þessum 40 þús. kr., sem hjer eru veittar. Og ekki gerir þetta fyrirtækið glæsilegra eða forsjálegra.

Ef menn vilja gæta að upphafi þessa máls, þá er það svo, að þingið tók að styrkja ungan mann og óreyndan til náms, og það styrkti hann án þess að það vissi með vissu, hvernig hann mundi reynast, en þótt það gerði það, þá getur það ekki verið skuldbundið til þess að ala önn fyrir honum eða ausa út fje til hans fyrirhyggjulaust ár eftir ár og má ske öld eftir öld. Því að ekki er alt búið þótt húsið verði bygt; einhvern rekstrarkostnað þarf við það á ári hverju. Og þótt húsið komist upp, þá er mikið eftir samt; það þarf að gera það vel notandi og fagurt á að líta, og það skyldi ekki undra mig, eftir því áframhaldi, sem verið hefir á þessu máli, þótt næst yrði farið fram á 400 þús. króna fjárveiting í því skyni, og gott ef það dugir. Það er margt, sem eftir er að gera við húsið; það er sett niður uppi við Skólavörðu, innan um tómt eggjagrjót, á einhverjum ljótasta staðnum, sem til er í Reykjavík, að öllu öðru en því, að hann liggur hátt og í fjarlægð frá miðbænum — máske til þess, að það verði síður skoðað, — og það kostar stórfje að gera svo að útbúnaði kringum húsið, að það verði fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks. Það er alveg einstök sjerviska að velja slíkan stað handa húsinu; það er eins og fávitar, óvitar eða ofvitar hafi hjer ráðið, og hugsað um það eitt að ausa út fje. Og svo þarf náttúrlega að höggva allar myndirnar í marmara, og ætli að þá þurfi ekki nokkrar miljónir? Og þetta hús er bygt að eins yfir eitt myndasafn, en ekki yfir flokk mynda eða fleiri söfn. Þarna verða ýmsar góðar myndir, en líka margar leiðar og ljótar.

En hvernig færi nú, ef upp risi meðal vor enn þá stærri myndhöggvari? Hvað ætti þá að gera? Því svara talsmenn þessa máls vitanlega svo, að þá eigi að byggja aðra byggingu — þeir geta ekki annað, ef þeir eiga að vera sjálfum sjer samþykkir — og þá byrja á því að veita til þess 4 þús kr., sníkja síðan út 19 þús. kr., rúmar þó, fá svo veittar 40 þús. og loks 400—500 þús. kr., eða hamingjan má vita hve mikið. Svona er gangur þessa máls; ekki er hann glæsilegur eða fagur til afspurnar.

Vegna þess, að þetta er skuggalegasti liðurinn í fjárlögunum, þá hefi jeg viljað koma fram með þessa brtt., þótt jeg heyri á undirtektum háttv. frsm. fjárveitinganefndarinnar (E. P.), að hún eigi ekki að ná samþykki. Jeg hefi samt viljað láta í ljós skoðun mína á þessu efni, og það þeim mun fremur, sem jeg hefi ekki áður haft tækifæri til þess. Og þeim mun rjettara er að samþykkja tillögu mína, þar sem nú er dýrtíð á allar lundir, og fram hefir komið tillaga um að veita fólki dýrtíðarhjálp, með því að selja eina vörutegund langt undir verði, og hjálpa með því að lána fje, sem vitanlega er tvísýnt að endurgreiðist. Það hafa verið strikuð út ýms nauðsynjafyrirtæki, og að vera þá að moka út fje til þessa, tel jeg lítt til gagns eða sóma fyrir landið. Jeg get ekki annað en litið svo á, sem það sje ótilhlýðilega farið með peninga. Og þótt landssjóður hafi kastað út 4 þús. kr. í þessu skyni, og leitt sje, að byrjað hefir verið á verkinu, þá er þó betra að hætta áður en lengra er komið. Máltæki eitt hljóðar svo: Það er betra að stíga í eldinn en standa í honum. Það á fyllilega við um þetta.

Jeg býst við því, að sá verði endir þessa máls hjer í háttv. deild, að till. sú, er háttv. þm. Snæf. (H. St.) hefir borið fram, um að heimila stjórninni að fresta framkvæmd verksins, verði samþykt. Jeg get felt mig við þá tillögu, og að líkindum mun á sama standa, hvort mín tillaga eða þessi verður samþykt, því að skapnaður sem þessi gengur altaf aftur. En eigi nenni jeg að taka tillögu mína aftur, því að eigi tek jeg mjer svo nærri, þótt hún falli, þótt leitt sje það ætíð þegar rjett mál verður að lúta í lægra haldi, en greiða mun jeg atkvæði tillögu háttv. þm. Snæf. (H. St.), eftir að mín er hnigin í valinn. En það hljóta allir að sjá, að bygging þessi er til leiðinda í alla staði, valinn versti og dýrasti tími til að koma henni á fót og hrúgað niður á auðnulítinn, óheppilegan stað, sett þarna eins og ný Steinkudys, í stað hinnar gömlu, er upp var rifin.

Þá er hin brtt., er jeg hefi gert við 20. lið 16. gr., um fjárveitingu handa erindreka Fiskifjelagsins erlendis. Í frv., eins og það kemur frá hv. Nd., er gert ráð fyrir að veita 4000 kr. hvort árið í þessu skyni, en jeg er nú það stórtækari en hv. Nd, að jeg vil færa styrkinn upp í 8000 kr. á ári. Jeg veit, að það hafa margir gert sig ánægða með minna en það, að styrkir til þeirra væru hækkaðir um helming, en eftir orðum háttv. framsm. (E. P.) þá er því ekki að heilsa hjer, því að hann vill, fyrir hönd fjárveitinganefndar, láta hækka styrkinn upp í 12000 kr. hvort árið, og segir, að það sje gert með tilliti til ferðakostnaðar og uppihalds. En jeg hygg, að 8000 kr. nægi fullkomlega til þess, og mjer skilst, að ef erindrekinn ferðast eitthvað í þágu sjerstakra atvinnuvega, þá geti sú atvinnugrein greitt honum ferðakostnaðinn eða þennan 4 þús. kr. mismun. Jeg veit, að við, sem störfum að landbúnaðinum, höfum gert svo, og lögðum 1% á kjötið í því skyni, og jeg býst ekki við, að sjávarútvegurinn þyrfti að setja slíkt gjald hærra hjá sjer en l%0, því að þar er um svo miklu stærri tölur að ræða. Og svo datt mjer í hug, að úr því að háttv. Nd. feldi tillögu um 12 þús. kr. fjárveiting til þessa, þá væri þessi hv. deild ekki það ólík henni, að henni þættu 8000 kr. nægja og gæti aðhylst það.

Hvað það atriði snertir, að landbúnaður geti síðar fengið slíkan erindreka, þá ljæ jeg því ekki eyru. Fyrst og fremst fer jeg ekki í neinn metnað milli landbúnaðarins og sjávarútvegarins, og í öðru lagi hygg jeg, að landbúnaðurinn þurfi ekki fyrst um sinn frekari erindreka en hann getur sjálfur greitt, og jeg frábið mjer allan metnað á milli þessara atvinnuvega.

Jeg legg ekkert kapp á það, hvort þessi tillaga nær fram að ganga eða ekki, en mjer finst hún vera sanngjörn leið og stilt svo við hóf, að líklegt sje, að bæði þeir, sem eru með 12 þús. kr., og þeir, sem eru með 4 þús. kr., geti felt sig við hana.

Á eina brtt. hv. fjárveitinganefndar vildi jeg minnast og gera þar grein fyrir skoðun minni, þótt jeg að öðru leyti láti mjer nægja að gera það með atkvæði mínu. Er það brtt. nefndarinnar um Flensborgarskólann. Jeg er þar á sama máli og hv. 2. þm. G.-K. (K. D.), að mig undrar það, að háttv. fjárveitinganefnd skyldi koma fram með þessa tillögu. Jeg álít, að það sje gersamlega rangt hjá nefndinni, að þessi skóli sje sveitaskóli; hann er landsskóli, en ekki fyrir einstakan hrepp eða sýslu, og þótt skólinn kunni að vera notaður meir úr sveitum þeim, er þar liggja að, en úr fjarlægari sveitum, þá er rangt að segja, að hann sje sýsluskóli fyrir það. Slíkt hið sama mætti þá segja um gagnfræðaskólann á Akureyri, því að mest mun hann vera sóttur af Eyfirðingum og Suðurþingeyingum, og allmjög mun muna á sókn þeirra í skólann og t. d. Sunnlendinga. En báðir skólarnir hafa líkum skyldum að gegna, og rjett til að veita nemendum viðtöku, hvaðan sem þeir eru af landinu, og Flensborgarskólinn mun öllu fremur vera gagnfræðaskóli Vestfirðinga en Akureyrarskólinn. Og jeg lít svo á, sem tillaga þessi sje þeim mun ástæðuminni, sem fullkomin reynsla er komin um það, að Flensborgarskólinn hefir reynst vel, og því ástæðulaust að krefjast þess, að Hafnarfjarðarkaupstaður, eða annað sýslufjelagið af tveimur, er liggja að honum, leggi fram fje til hans.

Skóli þessi hefir reynst vel; hann hefir útskrifað pilta, sem hafa, eins og piltar frá Akureyrarskólanum, án frekara skólanáms, gengið inn í hinn almenna mentaskóla með góðum vitnisburði. Það er því óeðlilegt og óheppilegt, að þingið fari að gera þær kröfur til skólans, sem gætu orðið honum til skaða.