08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Halldór Steinsson:

Jeg á hjer þrjár brtt., en get verið stuttorður um þær, sjerstaklega þegar tvær þeirra hafa fundið náð fyrir augum háttv. fjárveitinganefndar. Jeg ætla þó að drepa stuttlega á þær í röð.

Brtt. á þgskj. 840, við 15. gr. 20. d., fer fram á, að bætt sje aftan við liðinn um 40,000 kr. fjárveitingu til listasafns Einars Jónssonar þeirri aths., að stjórninni heimilist að fresta fjárveitingunni meðan stríðið stendur og efni og vinna verða ekki ódýrari. Mig furðar á, að stjórnin skyldi ekki setja þá athugasemd í frv. strax.

En ekki er svo að skilja, að jeg líti eins á mál þetta og hv. 4. landsk. þm. (G.G.).

Jeg er algerlega á því máli, að landið reisi húsið, en verði þó að láta það bíða þangað til betur blæs og efni leyfa, svo framarlega sem safnið liggur ekki undir skemdum. Líka mætti, ef nauðsyn krefði, leigja hús fyrir safnið um nokkurn tíma, og væri það betra en að ausa út stórfje á þessum erfiðu tímum. Og jeg lít svo á, að þótt till. sje orðuð að eins sem heimild, þá leggi hún þó þá skyldu á stjórnina, að fresta verkinu meðan ekki batnar í ári.

Þá er brtt. á þgskj. 841. Hún fer fram á, að bætt sje þrem orðum við athugasemdina um ferðastyrk dr. Helga Jónssonar, grasafræðings, að á eftir orðunum »eftir reikningi« komi: er stjórnarráðið úrskurðar.

Líta mætti svo á, að með upphaflegu athugasemdinni væru engar skorður settar þeim reikningi, en ef orðum þessum er bætt við, getur því ekki orðið til að dreifa. En þótt þessi orð kunni að þykja óþörf, þá ákveða þau þó skýrt og greinilega það, sem áður var óákveðið. Jeg vil því leyfa mjer að halda fast við, að þessi till. verði samþ.

Þriðja brtt. mín er á þgskj. 842 og fer fram á að hækka styrkinn til Guðmundar Hjaltasonar um 200 kr. á ári.

Þegar jeg fór yfir 15. gr. fjárlaganna og sá, hverjum þar var ætlaður styrkur og hve mikill, þá duldist mjer það ekki, að sá maður var ranglæti beittur. Jeg þekki manninn lítið sem ekkert. Hefi heyrt hann halda þrjá fyrirlestra um mismunandi efni, og duldist mjer það þá ekki, að hann er skapaður til að vera fræðari lýðsins.

Eins og kunnugt er hefir hann átt við þröng kjör að búa. Hann fór ungur út í heiminn, komst til Noregs, og vegna þess, að hann var góðum gáfum gæddur, tókst honum að afla sjer þar góðrar mentunar, sem komið hefir að miklu gagni síðar, bæði honum sjálfum og mörgum öðrum.

Hann hefir nú ferðast um landið í mörg ár og haldið fyrirlestra um margs konar efni, því að maðurinn er sjerlega fjölhæfur. Og athugavert er það, að fyrirlestrar hans hafa verið ágætlega sóttir; bendir það ótvírætt á, að eitthvað hefir þótt til þeirra koma.

Þá má líka geta þess, að Ungmennafjel., sem enn þá eru hjer í æsku, eiga honum mikið að þakka. Hefir hann verið þeirra stoð og stytta. Hv. frsm. (E. P.) gat þess, að hann mundi láta sjer nægja 800 kr. En hver getur sagt um það? Hann hefir að vísu ekki farið bónarveg til fárveitingarnefndarinnar og ekki heldur til mín nje neins annars þm.

En háttv. nefnd ætti að geta sett sig inn í það, að 800 kr. eru engin laun, þar sem þetta er aðalstarf hans. Og ef þingið samþ. brtt. mína, þá sýndi það um leið, að það metur starfið einhvers og vill styðja mentun íslensku alþýðunnar.

Um till. nefndarinnar þarf jeg ekki að fjölyrða. Mun sýna afstöðu mína til þeirra með atkv. mínu.

Brtt. háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) um að styrkja fyrv. vitavörð Jón Helgason er jeg alveg samþykkur. Eftir skjölum þeim, er hjer liggja frammi, hefi jeg komist á þá skoðun, að hann hafi verið beittur misrjetti af vitamálastjórn og landsstjórn, og álít jeg, að ekki væri oflangt farið, þótt áskorun væri gerð til stjórnarinnar um að taka málið upp aftur. Að minsta kosti væri styrkur þessi ekki ofmikil viðurkenning á ranglæti því, sem hann hefir verið beittur.