26.07.1917
Neðri deild: 18. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

80. mál, notkun bifreiða

Pjetur Þórðarson:

Jeg vildi taka það strax fram, að jeg er mótfallinn þessu frv. Jeg held, að það sje í aðalatriðinu ekki á rökum bygt, og á jeg þar einkum við hraðann. Jeg held, að það sje altof langt farið að takmarka hraðann, sem bifreiðarnar mega hafa, við 10 km. á klst. Það er ekki meiri hraði en svo, að fullfrískur maður getur vel komist þessa leið gangandi á sama tíma. Það sem veldur því, að mönnum finnast bifreiðarnar fara ofhart, mun vera það, að eftirlitið með því, að þær aki ekki nema 15 km. á klst., er ekki nægilegt, en ekki hitt, að það sje ofmikill hraði í sjálfu sjer, og það sýnist mjer geta verið varhugavert að takmarka hraðann ofmikið. Jeg skal nefna til dæmis, að um daginn þurfti jeg að bregða mjer upp á Laugaveg, og varð að vera kominn hingað niður eftir aftur eftir örskamman tíma. Jeg fór þetta í bifreið og náði í tæka tíð. En það er jeg viss um að jeg hefði ekki getað, hefði hraðinn ekki mátt vera meiri en 10 km. á klst. Jeg mun því með atkvæði mínu reyna til að koma í veg fyrir það, að þetta ákvæði verði að lögum.

Í öðru lagi, að því er kemur til ákvæða frv. um mæla, þá býst jeg við, að erfitt verði að fá þá, eða jafnvel alveg ókleift, og getur því farið svo, að þessi ákvæði girði algerlega fyrir notkun bifreiða, ef þeir verða ekki fengnir fyrir þann tíma, sem frv ákveður. Svo að jeg held, að ekki sje nauðsyn á, og jafnvel heldur lakara, að frv. nái fram að ganga. Jeg treysti mjer ekki til þess að fullyrða, að ekki megi ráða bót á þessu með mælana, en hinu verð jeg að halda fast fram, að það sje ótækt að minka hraðann.

Ef málið gengur lengra, mætti koma að bendingu um það að fá þá mæla, sem frv. getur um, eða að bifreiðum verði veitt hjálp til þess að útvega þá.

Enn fremur skal jeg taka það fram, út af gjaldskránni, að mjer virðist ekki gert ráð fyrir því í frv., að þeir, sem hjer eiga mestan hlut að máli, geti haft nokkur áhrif á hana, og það finst mjer ekki alveg sanngjarnt, þótt jeg beri ekki brigður á, að stjórnarráðið mundi gæta allrar sannsýni.

Í einu orði að segja, er jeg frv. yfirleitt mótfallinn.