06.08.1917
Neðri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Mentamálanefndin hefir lagt til að gera 3 breytingar á frv., og er engin þeirra sjerlega mikilvæg. Samkomulag mátti heita gott í nefndinni. Samt var nefndin ekki alveg sammála um það, hverjar skyldu vera fastar námsgreinar við skólann og hverjar fara eftir vild nemenda. Meiri hluti vildi, að danska yrði ekki skyldugrein, og til þess að kljúfa ekki nefndina samþyktist jeg það.

Fyrsta brtt. fer fram á það að taka upp í fyrirsögnina afhending skólans, í stað þess, að hún upphaflega að eins felur í sjer stofnun hans. Með þessari brtt. er efni frv. betur afmarkað en ella.

Önnur brtt. fer fram á það að raða kenslugreinunum niður á annan hátt en í frv., þannig, að danska verði, eins og enska, ekki skyldugrein, heldur heimil nemendum tilsögn í henni, ef óska.

Þriðja brtt. lýtur að launakjörum kennaranna. Það var til þess ætlast í frv., að skólastjóri fengi leigulaus 2 herbergi til íbúðar, og aðstoðarkennari 1 herbergi, en nefndin ætlar skólastjóra 3 herbergi auk eldhúss, og aðstoðarkennara 2 herbergi, hvorum tveggja þar með hita og ljós. Kjör kennaranna hafa þannig verið bætt að mun.

Annars liggur málið svo ljóst fyrir háttv. þingd., að ekki ætti að þurfa að fjölyrða um það meira.

Að eins skal jeg geta þess um brtt. á þgskj. 316, að hún fer í rauninni fram á það að færa 3. gr. í líkan búning sem hún hafði upphaflega, í fyrstu mynd frumvarpsins, og er hún mjer því eigi óskapfeld. En með því að jeg vann það til samkomulags í nefndinni að slaka til í þessu efni, þá get jeg ekki greitt atkv. með henni, en ánægja væri mjer samt að því, að hún hlyti sem flest atkv.