08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Kristinn Daníelsson:

Hv. frsm. (E. P.) sagði, að jeg hefði sagt, að Flensborgarskólann væri alveg hliðstæður Akureyrarskólanum. En þetta hefi jeg aldrei sagt. En hitt bar jeg saman, að gagnið, sem þessir skólar gerðu, væri líkt. Því að nemendur hafa farið úr Flensborgarskólanum inn í lærdómsdeild Mentaskólans, án svo sem nokkurs frekari undirbúnings, á sama hátt og nemendur Akureyrarskólans, að öðru en því, að þeir hafa orðið að taka próf. Það bar jeg einnig saman, að landið tekur nú að sjer skóla á Austurlandi, með stofneign líkri þessa skóla, og er að stofna húsmæðraskóla á Norðurlandi. Þess vegna virðist mjer, það ærið kynlegt, að á sama tíma skuli Flensborgarskólanum vera sýnt þetta tilræði. Jeg kalla þetta tilræði við skólann, því að mjer er vel kunnugt um, að Gullbringusýsla getur ekki greitt, og mun ekki greiða, skólanum þetta tillag, en án þess getur skólinn ekki haldið áfram, þar sem hann gæti einkis landssjóðsstyrks notið, nemu þessu skilyrði væri fullnægt. Nemendur skólans eru úr öllum fjórðungum, jeg vil jafnvel segja, úr öllum sýslum landsins. Og virðist mjer þess vegna sanngjarnast, að landið styrki skólann.

Jeg þarf ekki að bæta fleiru við orð hv. 4. landsk. þm. (G. G), sem talaði mjög hlýlega og viturlega í garð skólans.