08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

92. mál, stofnun alþýðuskóla á Eiðum

Björn Stefánsson:

Háttv. frsm. (Sv. Ó.) tók það fram, að sýslufundur í Suður-Múlasýslu hefði bent á að hafa kenslu í smíðum á námsskeiðinu. (Sv.Ó.: Það var sameiginlegur sýslufundur). Jæja, sameiginlegur fundur.

Jeg fyrir mitt leyti geri ekki mikið úr, þótt breytt væri út af því, því að þingið hefir breytt í öðru meira út af því, sem sýslufundur sá lagði fyrir. Sameiginlegur sýslufundur tók ekki ákvörðun um, hvort hafa skyldi bændaskóla eða alþýðuskóla á Eiðum, vildi hafa það óbundið að svo stöddu, en nú er búið að útiloka alveg bændaskóla. Jeg var aldrei vel ánægður með það, og vil því ekki sleppa jarðræktinni. Ef ekki á að kenna aðra hegð en viðgerðir og lagfæringar á jarðyrkjuverkfærum, þá má vel heimfæra það undir jarðrækt, og vil jeg því sleppa alveg orðinu »hegð«, svo að ekki verði farið að fitla við neitt alveg óviðkomandi jarðyrkju. Um mjólkurmeðferð er sama að segja; jeg sje ekki annað en að hún heyri alveg undir hússtjórn, og megi því sleppa orðinu alveg. Jeg get frekar búist við því, að eftir því, sem fleiri námsgreinar eru teknar fram, þyki forsvaranlegt á svona stuttu námsskeiði að sleppa einhverju af því. Jeg vil alls ekki láta slaka til með jarðræktina, því að nóg er búið að slaka til samt, og mikla nægjusemi hafa Austfirðingar sýnt, þar sem sýslurnar afhenda þessa eign, sem er á annað hundrað þúsund króna virði, og eiga svo að sætta sig við að fá í staðinn framhaldsbarnaskóla, því að annað eða meira verður þessi skóli ekki eftir frv. Það var gengið svo frá þessu frv. við 1. umr., þar sem feld var niður ein af þeim skyldunámsgreinum, sem þó upphaflega var gert ráð fyrir í frv., að mjer þykir nú komið nógu langt niður, og neðar vil jeg ekki fara og fer ekki.