14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

112. mál, herpinótaveiði á fjörum inn úr Húnaflóa

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Þetta frv. er fram komið að ósk Strandamanna og Húnvetninga. Sjávarútvegsnefndin, sem haft hefir málið til meðferðar, hefir komist að þeirri niðurstöðu, að rjett sje að leggja til, að það verði samþykt. Það stendur þannig á Húnaflóa, sjerstaklega vestanverðum, að þar er síld mikil og veiðisæld góð í fjörðum þeim, er inn úr Húnaflóa ganga, en komið hefir það fyrir, að botnvörpungar hafa dregið þar um herpinætur og gert með því trafala þeim, sem lagnet eiga inni í fjörðunum, og yrði meiri skaði að, ef meira væri um lagnetaveiði. Það virðist því ekki neitt til fyrirstöðu, að samþyktir yrðu gerðar um þetta. Það þyrfti enginn skaði að verða fyrir stórútgerð, því að firðir þessir eru allir mjóir, nema Steingrímsfjörður, og allir í landhelgi. Nefndin leggur því eindregið til, að frv. verði samþykt, með þeirri lítilfjörlegu breytingu, sem prentuð er aftan við nál. á þgskj. 408, að línan verði dregin frá Bjarnarnestöngum í Hnappasker á Hrútafirði, í stað Ennisstiga. Með þessu er hægt að komast af með eina beina línu, í stað tveggja, án þess þó, að oflangt sje farið í einu, því að það er óhugsandi, að stórskip fari inn fyrir þessa línu til að fiska. Þessi breyting miðar að því að gera línurnar, sem draga þarf, færri. Frá Heggsstaðanesi er svo dregin lína í Ánastaðabæ, og er því ekki ætlast til, að svæðið fram af Vatnsnesi verði friðað.

Frá Vatnsnestá skal svo lína dregin að Sölvabakka í Refasveit, en undanskilið er er þó dálítið svæði innan þeirrar línu, sem er utan landhelgi, því að vitanlega er ekki hægt að gera samþyktir um svæði, sem ekki eru í landhelgi.

Nefndin athugaði þetta nákvæmlega, og komst að þeirri niðurstöðu, að þetta væri engin hætta fyrir herpinótaveiði, en gæti komið í veg fyrir þá hættu, sem af því stafaði, ef farið væri með herpinætur inn á mjóa firði, því að það myndi spilla veiði hjeraðsbúa, án þess að herpinótaveiðin gæfi nokkuð verulegt í aðra hönd. Það er mikill hagur fyrir Húnvetninga og Strandamenn, ef komið væri í veg fyrir, að herpinótaveiði spilti lagnetaveiði, sem er mjög þýðingarmikil fyrir hjeraðsbúa, sem veiða síld, bæði til beitu, manneldis og skepnufóðurs. Jeg vil því, fyrir nefndarinnar hönd, mæla hið besta með frv. við háttv. deild.