18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

135. mál, kornforðabúr

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Jeg get verið stuttorður um þessar brtt. háttv. 2. þm. S.-M.

(B. St), því að í raun og veru eiga þær alls ekki við þetta frv., heldur við síðasta málið á dagskránni, sem sje forðagæslulögin. Jeg vil því eindregið leggja það til við háttv. flm. (B. St.), að hann taki þær aftur nú, en geri hann það ekki, þá er ekki annað ráð fyrir hendi en að fella þær.

Þetta frv., sem hjer er til umræðu, er ekki annað en sameining á þeim lagaákvæðum, sem nú gilda um kornforðabúr til skepnufóðurs, og upp í frv. eru einnig tekin ákvæði stjórnarfrv. um þetta sama efni.

Háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) vill, að sett sje inn í frv. ákvæði um fleiri fóðurtegundir, og er því til þess að svara, að korn er að því leyti langhentugast til forðatrygginga, að það geymist best allra fóðurtegunda, og því er miklu hægara að endurnýja kornforðann en annan fóðurforða. Kornið má nota til manneldis ef það er ekki notað, og því er hægt að fá forðann endurnýjaðan innan sveitar. Hjer er nefnilega ekki að ræða um forða, sem á að eyða samstundis, ef annars er kostur, heldur forða, sem á að geyma sem lengst og ekki grípa til nema í nauðirnar reki.