08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Eggert Pálsson):

Brtt. þær, sem fjárveitinganefndin hefir leyft sjer að koma með, eru hvorki margar að tölu nje víðtækar að efni. Að tölu eru þær að eins 5.

1. brtt., sem á við 13. gr. A. 2., fer í þá átt að færa niður fje það, sem áætlað er til póstflutninga, úr 80,000 í 68,000. Jeg get ímyndað mjer, að hv. deild komi þessi niðurfærsla á óvart. Frv. hafði farið í gegnum tvær nefndir, fjárveitinganefnd Nd. og Ed. og verið samþ. í Nd. með þessum 80,000 kr. En nú kemur fjárveitinganefnd hjer alt í einu, og svo að segja á síðustu stundu, með till. um 12 þús. kr. lækkun á þessum lið. Það býst jeg við, að háttv. þm. muni virðast þurfa skýringar. En svo stendur á þessu, að póstmeistarinn fór upphaflega fram á það við stjórnina, að hún ætlaði 80,000 kr. hvort árið til póstflutninga, í stað 68 þús., er verið hefir. Hann gerir þannig grein fyrir þessari hækkun, að hún standi í sambandi við dýrtíðina og sje ætluð til þess að greiða póstum skakkafall, sem þeir kunni að verða fyrir af henni. Vitanlega hafði fjárveitinganefnd Nd. ekkert við þetta að athuga. Henni þótti eðlilegt, að þessi útgjaldaliður yrði hærri en hann hefir verið hingað til, og svo leit einnig fjárveitinganefnd Ed. á þetta mál. En nú hefir formaður bjargráðanefndar lýst yfir því á síðustu stundu, að nefnd sú ætlist til, að í frv. um dýrtíðaruppbót embættismanna komi dýrtíðaruppbót til pósta, er ekki nemi minnu en þessum 12,000 kr., og gerir fjárveitinganefndin ráð fyrir, að þingið samþykki þetta, og verður þá þar af leiðandi óþarft að ætla þessar 12,000 líka í fjárlagafrumvarpinu. Það er líka óviðkunnanlegt að láta þessa einu dýrtíðaruppbót standa í fjárlagafrumvarpinu, en allar hinar dýrtíðaruppbæturnar í sjerstökum lögum. Nefndinni fanst betur fara á, að allar dýrtíðaruppbæturnar standi í einu og sömu lögunum. Þá hefi jeg skýrt frá ástæðunum til þessarar lækkunar, og hygg jeg, að jeg þurfi ekki að eyða fleirum orðum að henni. Vona jeg, að öllum háttv. þingdm. sje nú ljóst, hvernig á þessari till. fjárveitinganefndarinnar stendur.

Þá er 2. brtt., sem er að eins athugasemd, er nefndinni virtist rjett, eftir atvikum, að skotið væri hjer inn, sem við aðra liði, þar sem farið er fram á fjárveitingar til einhverra sjerstakra starfa, svo sem vita, brúargerða, símalagninga o. s. frv. Þetta var eini liðurinn, sem slíka athugasemd vantaði við, og fanst nefndinni rjett að setja hana við þennan lið, sem alla aðra samskonar liði.

Þá er 3. brtt. nefndarinnar, sem miðar til hækkunar. Þar er farið fram á, að launin við Mentaskólann hækki um 400 kr. á ári. Svo stendur á þessari hækkun, að rektor Mentaskólans hefir borið sig upp undan því, að við þá breytingu, sem varð, er fyrsti kennari skólans fluttist úr skólahúsinu, hafi ýms störf viðvíkjandi skólanum flust yfir á sig, sem meðal annars eru fólgin í því að strika og skrifa við í prófbókum skólans og ýmsu fleiru. Hafi svo mikil störf verið á sig lögð með þessu, að hann þykist eiga rjett á að fá dálitla launaviðbót. Og fjárveitinganefndinni fanst ekki sanngjarnt að slengja svo miklum störfum á einn mann, án þess að honum yrði greidd einhver uppbót. Þess vegna hefir hún lagt það til, að launin skuli hækkuð um 400 kr.

Þá er 4. brtt., sem einnig miðar til dálítillar hækkunar. Þar er farið fram á að veita Þórbergi Þórðarsyni, málfræðinema, 600 kr. hvort árið, til þess að safna fornum og sjaldgæfum orðum úr íslensku alþýðumáli. Þessi piltur er að allra dómi mjög efnilegt málfræðingsefni og hefir ágæt meðmæli frá háskólakennurum sínum, Birni M. Ólsen, Bjarna frá Vogi, Alexander Jóhannessyni og Holger Wiehe. Þeir ljúka allir lofsorði á þennan pilt og telja víst, að ef hann fengi þennan styrk, mundi það að miklu gagni geta komið. Hugsun hans er sú að ferðast um landið á sumrum og safna fágætum orðum, sem annars mundu deyja og gleymast úr málinu. Hugsar hann til að koma þessu síðan í eitt safn og leggja það til Landsbókasafnsins, þar sem það á að vera geymt til afnota handa þeim, sem fæst við að semja íslensk-íslensku orðabókina. Dr. Björn M. Ólsen segist hafa sjeð dálítið orðasafn hjá honum, einkum af Vesturlandi, og kveður hann svo að orði, að sjer lítist mjög vel á það.

Þá er 5. brtt., sem er að eins orðabreyting. Hún miðar að því að lagfæra fyrirkomulagið á 18. gr., og nefndin boðaði þessa breytingu í nál. fyrir fjárlagafrumvarpinu. Geta háttv. þingdm. nú borið um, hvernig þeim líst á þessa breytingu. Nefndinni fanst þetta fyrirkomulag líta smekklegar út og vera greinilegra en það var í fjárlagafrumvarpinu. Það er sýnilegt, að ef fyrirkomulagið á þessari grein hefði verið látið standa óbreytt framvegis, eins og það var í fjárlögunum, mundi það verða óaðgengilegra að finna í því hina einstöku liði. Um þessa breytingu er í raun og veru ekkert fleira að segja. En sakir þess, að »útkoman« kemur ekki alveg heim við 18. gr., eins og hún var upphaflega, þykist jeg þurfa að skýra breytinguna dálítið nánar, og það geri jeg best með því að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, greinargerðina fyrir brtt. þessari, sem er á skjali, er liggur hjer fyrir framan mig. Og hljóðar hún svo:

Aðalupphæð greinarinnar, eins og hún var eftir

2. umræðu í deildinni, er: kr. 191,196 94

Frá þessari upphæð dragast:

1. Eftirlaun Þorgríms læknis Johnsens, sem nú er dáinn, en þau

voru bæði árin: — 3,172 40

2. Uppeldisfje drengsins Jóns Baldurs Jónssonar, hjeraðslæknis í

Hróarstunguhjeraði Jónssonar, en hann dó í fyrra úr mislingum á Seyðisfirði: — 160 00

_______________

Alls: — 3,332 40

Þá er eftir af aðalupphæðinni — 187,864 54

En við þessa upphæð bætist svo:

1. Hækkanir á tveim prestsekkjum, svo að styrktarfje þeirra standi á heilum krónum

a. Ástu Þórarinsdóttur úr 129,94 kr. upp í 130 kr. sem gerir

bæði árin: — 0 12

b. Ragnheiðar Jónsdóttur úr kr. 105,40 upp 106 kr., sem

gerir bæði árin . — 1 20

Alls: — 1 32

2. Eftirlaun ekkju Þorgríms Johnsens, Soffíu, sem stjórnarráðið hefir ekki reiknað nákvæmlega út, en sagt, að væru um 400 kr.; þau eru hjer áætluð þannig, að öll upphæðin í þeim flokki, embættismannaekkjur og börn, stendur á heilum tug króna, og verða þannig bæði árin:

kr; 806 14

Viðbótin gerir þá alls: — 807 46

Verður þá aðalútkoman á greininni: — 188,672 00

En við þessa breytingu verður lækkun í fjárlagafrumvarpinu, sem

nemur: — 2,524 94

sem stafar aðallega af fráfalli þessara tveggja manna.

Þá hefi jeg skýrt frá öllum þeim brtt. nefndarinnar, sem fyrir liggja.

En þá skal jeg snúa mjer að brtt. frá einstökum mönnum.

Þar er fyrst brtt. á þingskj. 890, sem er frá fjármálaráðherra (S. E.). Hún fer fram á styrk til skrifstofuhalds handa sýslumönnum og bæjarfógetum utan Reykjavíkur. Þetta mál hefir legið fyrir báðum fjárveitinganefndum þingsins. Málaleitun í þessa átt kom fyrst til fjárveitinganefndar Nd. Var hún þá að vísu í ófullkomnara gervi en hún er nú, enda sendi nefndin stjórninni hana til umsagnar. En stjórnin sendi hana fjárveitinganefnd þessarar háttv. deildar. En nefndin vildi ekki gerast frumkvöðull að þessum styrkveitingum, en lýsti yfir því, að hún mundi eigi verða þeim mótfallin, ef hæstv. stjórn vildi bera hana fram.

Þá er brtt. á þingskj. 879. Hjer er farið fram á þriðjungi lægri styrk en gert var við 2. umr. fjárlaganna. En sú styrkbeiðni var þá tekin aftur. Jeg get lýst yfir því fyrir hönd nefndarinnar, að meiri hluti hennar var brtt. þessari meðmæltur.

Næst er brtt. við 13. gr. A. 1. b. 1., á þingskj. 889. Þessi brtt. er komin frá atvinnumálaráðherranum og miðar að því að hækka laun póstafgreiðslumanna í Reykjavík, og nemur sú hækkun 1300 kr. á ári. Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. atvinnumálaráðherra muni gera grein fyrir, hvernig þessi hækkun eigi að koma niður, og bíð jeg því eftir að fá að vita, hvernig hann hugsar sjer, að þessi hækkun eigi að koma niður á hvern einstakan póstafgreiðslumann. Mjer er óhætt að segja, að atkvæði fjárveitinganefndarinnar um brtt. þessa er algerlega óbundið, og er því ástæðulaust að óttast, að nefndin verði móti henni sem heild.

Þá er brtt. frá háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) á þingskjali 886. Þetta er að eins athugasemd, sem fjárveitinganefndin gerir hvorki að mæla með nje móti. Jeg tel þessa athugasemd hafa litla þýðingu sem slíka í frv. Jeg álít, að betra hefði verið, að þessi athugasemd hefði, svo sem einskonar bending, því að annað er hún ekki, falist í sjálfu nefndarálitinu. Nefndin lítur svo á, að þó að þessi athugasemd standi í frv., þá verði að greiða styrkinn, hvort sem fjelögin leggja áherslu á þetta atriði eða ekki. Hins vegar sjer nefndin þó ekki neitt á móti þessari athugasemd.

Þá er brtt. á þingskj. 883. Af því að brtt. þessi er þannig fram komin, að hún er frá einum nefndarmanna, sem er málinu sjerstaklega kunnugur, vildi nefndin, að hann bæri hana fram sjerstaka. En nefndinni var hins vegar ljóst, hvað um var að ræða, og jeg get lýst yfir því fyrir hennar hönd, að hún var brtt. fremur meðmælt en hitt.

Þá er brtt. á þingskj. 882., frá háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.). Þessi brtt. fer fram á að veita Jóni Helgasyni, fyrverandi vitaverði, 1000 kr. f. á. Við 2. umr. fjárlaganna bar sami háttv. þm. fram brtt., sem fór fram á 500 kr. hvort árið handa manni þessum. En svo mun mega líta á, að sú brtt. mundi ekki hafa haft byr hjer í deildinni, með því að það hefði mátt gera ráð fyrir, að þetta yrði áframhaldandi styrkur, enda tók hv. þm. (K. D.) hann aftur. En sakir þess, að hjer er farið fram á 1000 kr. annað árið, þá mun tilgangurinn með því vera sá, að styrkbeiðandinn njóti ekki styrks til langframa. Nefndin hefir komið sjer saman um, að atkvæði hennar skuli óbundið um þennan lið.

Þá er brtt. á þingskj. 881, sem fer fram á 1000 kr. hvort árið til stórstúku Goodtemplara. Um þessa brtt. er það sama að segja og um brtt. næstu á undan, að nefndin hefir komið sjer saman um, að atkvæði hennar skuli vera óbundið um hana.

Fleiri brtt. liggja ekki fyrir, og læt jeg því hjer staðar numið að þessu sinni.