22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

146. mál, almenn hjálp

Hákon Kristófersson:

Það er enginn vafi á því, að tilgangur þeirra manna, er þetta frv. flytja, er hinn besti. Það er því alls ekki til að rýra álit þeirra, að jeg lýsi yfir því, að jeg hlýt að vera á sama máli og háttv. þingm. V.-Sk. (G. Sv.). Jeg er sem sje í miklum vafa um, hvort þetta frumvarp fer fram á þá veigamiklu og sjálfsögðu hjálp, sem þessu þingi ber að veita almenningi, eins og nú er högum háttað hjá öllum þorra þjóðfjelagsins. Jeg hygg, að almenningur líti svo á, að þinginu beri að gera veigameiri og víðtækari ráðstafanir til að hjálpa út úr þeim vandræðum, sem sýnilegt er að nú standa fyrir dyrum. Jeg vil leyfa mjer að benda á 2. gr. þessa frv. Þar stendur, að stjórninni skuli heimilt að verja fje til atvinnubóta o. s. frv. Það má vel vera, að þetta sje vel frambærilegt, en varla á það þó alstaðar við, því að varla getur það verið meiningin, að í hverri sveit, þar sem menn eru þurfandi, verði bygð stórhýsi. Á vetrum eru líka vegabætur ómögulegar, en á sumrin þarf varla íhlutun hæstv. stjórnar til að veita mönnum atvinnu. (P. O.: En ef sjávarútvegurinn legst niður?) Jeg vil vona það besta, og er í engum vafa um það, að sjávarútvegurinn hvorki má nje á að leggjast niður, enda finst mjer það sjálfsögð skylda stjórnarinnar að tryggja það, að svo fari ekki. Því að með því að tryggja atvinnuveginn eru trygð lífsskilyrði þjóðarinnar.

Hjer í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að landsstjórnin taki lán til að geta veitt það aftur sveitarstjórnunum. Þetta er nú fallega hugsað, enda gengur forgöngumönnum auðvitað það besta til, en jeg er í nokkrum vafa um, að þótt þetta frv. verði að lögum, komi hjálpin aldrei að verulegum notum. Mjer blandast ekki hugur um, að allur þorri fátæklinga flýr ekki fyr á náðir sveitarstjórnarinnar en þeir mega til, og þá getur það oft verið um seinan. Segjum nú, að ís lokaði höfnum, og engin matvæli væru til. Ætli það kæmi ekki að litlu haldi, þótt sveitarstjórnin fengi þá lán, þegar alt er komið í ótíma? Jeg get ekki betur sjeð en að það verði að fá lán þegar að hausti og kaupa mat fyrir, svo framarlega sem afkoma almennings yfir næsta vetur á að vera trygg, því að jeg er hræddur um, að sveitarstjórnirnar sæki ekki um lán fyr en þær sjá, að ekki er annað fært. Jeg verð að segja það, að nýtilegri till. en þessar hafa verið feldar hjer, og meina jeg þar frv. um að selja vörur undir verði, því að það álít jeg nýtilegasta frv., sem fram hefir komið, og það gleður mig því mjög, að hæstv. forsætisráðherra hefir viðurkent, að þær tillögur væru hyggilegar, og beint því til háttv. bjargráðanefndar að athuga það enn á ný. Hann fór nú reyndar ekki lengra en svo, að hann vildi, að stjórninni væri gefin heimild til að grípa til þessa, ef nauðsyn krefði. Jeg vil nú ekki gera neitt lítið úr því, en álít þó ekki, að nauðsyn sje á slíkri þingsályktunartill., því að jeg veit ekki betur en að stjórninni hafi á síðasta þingi verið gefin heimild til að selja landssjóðsvöru út um land með sem líkustu verði alstaðar. Þessi heimild hefir ekki verið notuð, nema þá að litlu leyti, og gefur það því síst ástæðu til að ætla, að frekar yrði það að notum að samþykkja nú aðra slíka eða eitthvað, er færi í líka átt. Hæstv. forsætisráðherra sagði, að skipa mætti nefnd manna, stjórninni til ráðuneytis. Jeg veit ekki, hvað sú nefnd ætti að gera, því að jeg verð að bera það traust til stjórnarinnar, að varla beri brýn nauðsyn til að láta hana hafa slíka nefnd til ráðuneytis. Sem sagt, jeg er hæstv. forsætisráðherra mjög þakklátur fyrir það, að hann hefir látið í ljós þessa skoðun, því að hún er alveg í samræmi við mína eigin skoðun. Jeg álít, að sú leið, sem hann benti á, sje sú rjettlátasta og sjálfsagðasta, svo framarlega sem þingið vill skilja svo við þessi mál, að það hljótist ekki hneisa af.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) þótti sú leið, að borga verðhækkun, ófær, af því að ríkir og fátækir nytu jafnt góðs af henni. Án þess að jeg vilji gera neitt lítið úr tillögum þess háttv. þm. (S. S.), verð jeg þó að segja það, að mjer finst það nokkur smámunasemi að borga þeim efnaðri ekkert. Að vísu get jeg viðurkent það, að frá mannúðarlegu sjónarmiði er það alveg rjett, en ef það leiddi til þess, að margir fátækir yrðu þar fyrir engrar dýrtíðaruppbótar aðnjótandi, teldi jeg það illa farið. Sá sami háttv. þm.

(S. S.) mintist á, að þetta yrði nokkurskonar ofanálag á dýrtíðaruppbót embættismanna. Þótt svo yrði, sje jeg ekki, að öðruvísi sje hægt að koma því fyrir, enda ýmislegt, er heyrst hefir á síðari tímum, sem gerir það að verkum, að jeg get ekki litið öðruvísi á en að við stöndum okkur ekki við annað en að veita embættismönnum, sjerstaklega þeim, er stöðu sinnar vegna þurfa að hafa dýrt skrifstofuhald, allríflega uppbót. Við höfum heyrt, að stjórnin borgar þeim mönnum, sem hún ræður nú, miklu hærra kaup en tíðkast hefir, og mjer finst því ekki nema eðlilegt, að embættismenn teldu sig allmiklu ranglæti beitta, ef miður væri með þá farið en verkamenn, er stjórnin ræður, og gegna óbrotnum störfum.

Mín afstaða til þessa frv., sem hjer er um að ræða, er sú, að jeg sæi ekki eftir, þótt það yrði felt, ef í staðinn fyrir það kæmi frv. líkt því, sem minni hluti bjargráðanefndar bar fram. (S. S.: Við viljum ekki hafa neinar afturgöngur hjer.) Það líkist engri afturgöngu, þótt það yrði tekið til yfirvegunar aftur, og því eru þessi ummæli háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) alóþörf. Jeg kalla ekki nýja yfirvegun afturgöngu, því að sú leið væri sæmilegri en þessi, ef málið yrði betur til lykta leitt en áður.

Að svo mæltu skal jeg ekki fjölyrða frekar um málið, því að jeg hefi þegar lýst afstöðu minni til þess.