08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Karl Einarsson:

Jeg á brtt. á þgskj. 883, þar sem farið er fram á, að veittar sjeu 3300 kr. til endurgjalds hafnarsjóði Vestmannaeyja fyrir útlagðan kostnað við rannsókn á hafnarstæði í Vestmannaeyjum og undirbúning hafnargerðar. Á þingi 1911 voru í fjárlögunum veittar 4000 krónur til þessarar rannsóknar, og var þá búist við hafnargerð, sem kostaði um 60 þús. krónur. Fje þessu var varið þannig, að sýslunefndin sneri sjer til landsstjórnarinnar og bað hana að útvega sjer verkfræðing til þess að framkvæma rannsóknina og gera áætlun um kostnað hafnargerðarinnar. Landsstjórnin varð við beiðni þessari og útvegaði nefndinni verkfræðing, sem svo framkvæmdi þetta verk; en það kostaði kr. 7305,64, eins og reikningur hafnarsjóðs Vestmannaeyja fyrir árið 1913 ber með sjer. Árangurinn af þessari rannsókn varð sá, að samin voru lög og samþykt, sem heimiluðu sýslunefndinni hafnargerð í Eyjunum, og var þá gengið út frá þessum undirbúningi og bygt á þessum áætlunum, enda var ráðist í fyrirtækið, eins og kunnugt er. Þegar beiðnin um fjárveitingu til rannsóknar hafnarstæðisins var borin fram í þinginu 1911, sjest á framsögu málsins, að sanngjarnt er talið, að landssjóður kosti rannsóknina, og er þessu svo vel tekið, að enginn andmælir því, en annar þingmaður mælir með tillögunni, og hún svo samþykt.

Þar sem nú rannsóknin varð svo mun dýrari en búist var við, en það stafaði einungis af því, að rannsóknin var ítarlegri og hafnargerðaráætlunin stærri og því dýrari, þá vænti jeg, að háttv. deild verði við þessari beiðni, sem sýslunefndin í Eyjum sendi þinginu 1914. Að málið kom þá ekki fram var af því, að fjáraukalögin voru feld í háttv. Nd., en svo láðist mjer á þinginu 1915 að bera beiðnina fram fyr en svo seint (við eina umr. fjárlaganna í Ed.), að háttv. deildarmenn sumir vildu ekki setja fjárveitinguna inn, þar sem háttv. Nd. þá ekki, ein út af fyrir sig, gat átt kost á að taka ákvörðun um málsatriði þetta.

Jeg vona, að þetta sje nægilegt til skýringar þessu, og vænti, að hv. deild sje það ljóst, að hjer er um sanngirni að ræða, að minsta kosti.

Fyrst að jeg stóð upp á annað borð, vildi jeg leyfa mjer að minnast örfáum orðum á brtt. á þgskj. 890. Sumir kunna ef til vill að líta svo á, sem þetta mál snerti mig persónulega, og þess vegna eigi jeg ekki að greiða atkv. um það. Jeg get ekki litið svo á. Málið snertir heila stjett manna, og finst mjer því, að jeg geti ekki skorast undan að greiða atkv. um það. Hjer er um allar sýslur landsins að ræða, að Reykjavík einni undanskilinni, og er það af þeirri skiljanlegu ástæðu, að samþ. hafa verið lög hjer á þinginu um skiftingu bæjarfógetaembættisins, og er þar gert ráð fyrir sjerstökum skrifstofukostnaði til hvors mannsins fyrir sig.

Jeg vildi að eins taka þetta fram til þess að fyrirbyggja misskilning.