22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1423)

146. mál, almenn hjálp

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg er nú búinn að tala svo oft í þessum dýrtíðarmálum, að jeg þarf ekki að tefja tímann lengi. Jeg tók það fram hjer um daginn, að jeg gæti sætt mig við hvaða góða leið sem farin væri í þessu máli, og væri fús á að styðja allar tillögur, ef þær væru til bóta og miðuðu að því að ráða fram úr vandræðunum. Jeg tók það einnig fram, þegar þetta frv. var til umr., og jeg er sömu skoðunar enn og býst ekki við, að jeg breyti henni síðar, að þetta frv. er ekki nóg til að ráða fram úr vandræðunum á komandi vetri. Það þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn og segja, að atvinnubætur sjeu nægilegar til að ráða bót á voðanum, sem yfir vofir. Það sýnir bara, að þingmenn eru ekki nógu kunnugir ástandinu, eins og það er nú orðið. Það er eins og þeir álíti, að atvinna manna hafi ekki neitt breyst frá því, sem áður var, og að tekjurnar standi í sama hlutfalli við útgjöldin eins og áður. Þeir, sem kynna sjer ástandið að einhverju leyti, munu fljótt sjá, að alt annað verður uppi á teningnum. Hvað verður um alla þá menn, sem hafa haft atvinnu við siglingar eða við fiskveiðar á botnvörpungunum, þá, sem hafa unnið að uppskipun úr þeim og hirt um fiskinn á landi? Hvað verður um alt þetta fólk? Alt breytist, og fleiri hundruð manns, sem hafa haft atvinnu við þennan útveg, er svift bjargræði sínu. Margt af þessu fólki er þannig, að það getur t. d. ómögulega unnið útivinnu. Kaupmenn eða útgerðarmenn láta það líklega vinna eitthvað áfram, þótt þeir þurfi þess ekki nauðsynlega með, til þess að það geti dregið fram lífið. En þeim verður það ómögulegt, ef þeir eiga að borga hærra kaup. Þeir halda vinnunni áfram að eins til þess, að gamlir og dyggir þjónar fari ekki á vonarvöl. En þegar kaupgjaldið nægir ekki til framfærslunnar, af því að alt er orðið svo dýrt, þá stendur voðinn fyrir dyrum. Þingmenn tala mikið um það að bæta úr atvinnuskortinum með því að fara að undirbúa byggingar. En þeir gá ekki að því, að það eru fjölda margir menn, sem ómögulega geta haft gagn af þeirri vinnu. Jeg hefi ekki orðið var við, að bent hafi verið á neina leið til að útvega þeim atvinnu, sem þola ekki útivinnu. Mjer er ekki ljóst, hvernig ætti að haga þeim atvinnubótum inni við, og væri því þökk á, ef einhver úr háttv. meiri hluta bjargráðanefndar vildi benda á leið til þess.

Enn er eitt. Með því kaupi að vetrarlagi, sem mönnum er nú goldið, og ekki verður gert ráð fyrir að muni hækka, þá hafa menn ekki nóg, og liggur þá ekki annað fyrir mönnum en að taka lán, og er jeg viss um, að margir verða að hleypa sjer í stórkostlegar skuldir, sem flestir munu sjálfsagt taka nærri sjer að gera; jeg tala nú ekki um, ef þetta ákvæði á að standa, að þeir skuli fara á sveitina, sem hafa ekki endurgreitt lánin innan 10 ára. Annars sýnir þetta ákvæði best, hvað meiri hl. nefndarinnar hefir lítið hugsað um málið; það er alveg eins og meiri hl. haldi, að alt komist þegar í samt lag, undir eins og ófriðnum er lokið. En það er áreiðanlegt, að dýrtíðin helst í 10 ár eftir að ófriðnum er lokið, svo að í rauninni er það að eins tímaspursmál, hve nær þeir fara á sveitina, sem lán hafa tekið.

Andmælum þeim, sem hafa komið gegn því að draga úr dýrtíðinni á þann hátt að selja vörur undir verði, þarf jeg ekki að svara, því að þau studdust við engin rök. Þessir andmælendur eru altaf að vitna í atvinnubætur, en það er augljóst, að þær ná eigi til fjölda manna. Og að þessi aðferð, að selja vörur undir verði, dragi úr því, að menn reyni að bjarga sjer sjálfir, eins og hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, það er hrein fjarstæða. Eins og mönnum muni ekki veitast full erfitt að kaupa t. d. smálest kola, þótt hún sje seld á 200 kr., í stað 300 kr., sem hún nú kostar, og eins og menn reyni ekki að bjarga sjer sjálfir fyrir því? Það er undarlegt að heyra jafnreyndan og roskinn mann segja þvílíkt; en þetta er víst fremur sagt í athugaleysi en af því, að hann bresti skyn á þetta, en það er jafnaðfinningarvert fyrir því, og eiginlega miklu fremur.

Háttv. fram. (Þorst. J.) sagði, að ákvæði 3. gr. mundu ekki fæla menn frá að taka lán. Jeg get fullvissað hann um það, að einmitt þau ákvæði fæla alla menn, sem nokkurs eru nýtir, frá því, en amlóðum og slóðum er auðvitað sama, hvaðan þeir fá peninga, og má skoða lánsheimild frv. sem verðlaun fyrir þá, en hegning fyrir hina, sem ekki stendur á sama um, hvaðan þeir fá peninga til þess að framfleyta sjer og sínum.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að með þessu væri sjeð fyrir, að allflestir mundu geta dregið fram lífið sómasamlega. Jeg veit nú ekki, hvað hann telur sómasamlegt, t. d. að menn sjeu illa klæddir og illa haldnir að mat, ef þó halda lífinu. En jeg get fullvissað hann um það, að mörgum veitir þetta erfitt nú um hábjargræðistímann, hvað þá þegar vetrar og þarfirnar aukast margfaldlega. Háttv. þm. (M. Ó.) kallar það ef til vill sómasamlegt, ef menn falla ekki úr hor.

Jeg veit nú reyndar, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) telur þá afkomu sómasamlega, þótt menn líði ekki mjög af skorti; jeg þekki hann ekki að öðru en mannúð og sannsýni. En því miður komast sjálfsagt margir ekki af sómasamlega næsta vetur.

En þeir, sem hafa ekki annað af að lifa en handafla sinn, eiga þess ekki kost að lifa sómasamlega sem stendur, og því síður þegar vetrar. Það má heita merkilegt, að menn vilji ekki þræða þá leið að greiða verðhækkun á vörum, leið, sem aðrar þjóðir, oss nálægar, hafa þó farið.