12.09.1917
Efri deild: 55. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1434)

146. mál, almenn hjálp

Fram. meiri hl. (Karl Einarsson):

Jeg vona, að háttv. þingdeildarmenn hafi kynt sjer nál. á þgskj. 875, og í því trausti mun jeg verða mjög fáorður um mál þetta, þangað til ef hreyft yrði andmælum, sem á einhverjum rökum eru bygð.

Efni frv. er það, að samkvæmt 1. gr. þess er landsstjórninni veitt heimild til að lána fje til bæjar- og sýslufjelaga úti um land, til þess að afstýra yfirvofandi neyð vegna dýrtíðar. Og samkvæmt orðalagi greinarinnar má einnig verja fje þessu til þess að halda uppi ýmsum atvinnurekstri, sem annars gæti stöðvast, vegna fjeleysis þeirra, er fyrir honum standa.

Þegar litið er á þetta, sjest, að mikið gagn getur orðið að lánveitingu þessari, sjerstaklega þegar þess er gætt, að lánið á að veitast með góðum kjörum.

Þá er önnur heimild veitt í 3. gr. frv. Hún er sú, að landsstjórnin megi láta framkvæma ýms verk, er annars gætu beðið, ef nauðsyn þykir, til þess að útvega mönnum atvinnu.

Þetta gæti líka komið að miklu gagni.

En meiri hluti nefndarinnar leit þó svo á, að ekki mundi þetta nægja, og að minsta kosti sumir í nefndinni töldu það óverjandi af þinginu að gera ekki frekari ráðstafanir til þess, að daglaunamenn og fátæklingar gætu fengið helstu nauðsynjar við svo sanngjörnu verði, að þeir þyrftu ekki að vera án þeirra; því að svo er nú komið, að verð þeirra stendur ekki í neinu hlutfalli við algeng daglaun. Daglaunahækkunin er sem sje ekki neitt í líkingu við verðhækkunina.

Yfirleitt hafa allar nauðsynjavörur hækkað mjög í verði, en sjerstaklega vill nefndin benda á eina af helstu nauðsynjavörum sjávarþorpanna, eldiviðinn, Eins og menn vita er hjá þeim naumast um annan eldivið að tala en kol, sem nú hafa stigið svo gífurlega í verði, að þau eru nú seld hjer á 300 kr. smálestin. Það er meira en 15 sinnum hærra verð en var fyrir ófriðinn.

Þegar litið er á það, að þessi liður af útgjöldum alþýðu í kaupstöðum er venjulega einn stærsti liðurinn, þá liggur í augum uppi, að hann hlýtur að vera ákaflega stór nú.

Þessu atriði áleit nefndin að ekki mætti ganga fram hjá. Hún reyndi því að finna einhverja úrlausn, en fór þó eins vægt í sakirnar og hægt var. Leggur hún til, að ? hluti þeirra kola, sem nauðsynleg eru til heimanotkunar, verði seldur á 125 kr. smálestin, komin á þá staði, sem hentast er að koma kolunum á land, án tillits til þess, hvort hentast er fyrir almenning að sækja þau þangað.

Að vísu dylst nefndinni það ekki, að þetta verð er svo hátt, að fátæklingar munu ekki geta keypt vöruna fremur eftir en áður. Þess vegna er bætt við ákvæðinu, að sveitar- og bæjarfjelög megi selja kol þessi við mismunandi verði, eftir því hverjir í hlut eiga. Og að ekki er farið fram á að selja nema ? af því, sem með þarf, undir verði, kemur af því, að gera má ráð fyrir, að alstaðar sjeu efnamenn innan um, sem keypt geta kolin, þótt við háu verði sje. En til þess er ætlast, að þetta geti með sparnaði nægt til þess að bjarga fátæku fólki í versta kuldanum og til þess að sjóða matinn, og yfirleitt til hins allra nauðsynlegasta.

Hversu mikil útgjöld þetta verða fyrir landssjóð er ekki gott að segja, getur orðið alt að hálfri miljón, en vonandi er, að það, sem landssjóður þarf að greiða, fari ekki fram úr 100 kr. á smálest, að viðbættum flutningskostnaði.

Þá vil jeg geta þess, út af ummælum þeim hjer áðan, að þessi háttv. deild ætti að fara sem varlegast í að taka ákvarðanir um öll fjármál, hvort sem væri um skatta eða aukin útgjöld, að jeg vil mótmæla þessu fastlega. Í þessari háttv. deild sitja 6 háttv. þm., sem kosnir eru af öllum landsmönnum, og hinir, sem hjer eiga sæti, eru kosnir á sama hátt og þeir háttv. þm., sem Nd. skipa. Jeg lít því svo á, að þessi háttv. deild hafi alveg eins fullan rjett til að taka slíkar ákvarðanir og háttv. Nd.

Jeg hlýt því að furða mig á, að hæstv. atvinnumálaráðherra skuli leyfa sjer að viðhafa þau ummæli, að þungamiðja þingsins í fjármálum eigi að vera í háttv. Nd. Jeg lít svo á, að þessi háttv. deild þurfi alls ekki að kynoka sjer við að taka ákvarðanir, þótt um hálfa miljón sje að ræða, hvernig svo sem háttv. Nd. kann að taka því.

Nú er það gefinn hlutur, að dýrtíðin, hvað kolin snertir, gengur mest út yfir fátækt sjávarfólk. En það fólk hefir þó lagt sitt til, bæði fjármuni, krafta og heilsu, til þess að halda uppi öðrum aðalatvinnuvegi landsins, sjávarútveginum, sem lengst af hefir lagt aðalskerfinn í landssjóð.

Jeg vona því, að svo margir skynsamir og sanngjarnir menn sjeu í háttv. Nd., að hún finni skyldu sína að rjetta þessum mönnum hjálparhönd, svo að þeir lendi ekki í neyð á komandi vetri.

Nefndinni þótti ekki tiltækilegt að láta ákvæðið ná lengra fram í tímann en til komandi vetrar, þar sem búist er við, að þing komi saman næsta sumar, og ekki er víst, hvernig ástæður allar verða þá.

Um aðrar brtt. nefndarinnar vil jeg taka eftirfarandi fram.

1. brtt. er þess efnis, að sveitarstjórnir skeri úr því, hvort um neyð er að ræða eða ekki. Þessi brtt. er gerð í þeim tilgangi að koma í veg fyrir sífeldar brjefaskriftir, sem annars gætu átt sjer stað, á milli stjórnarinnar og einstakra manna, því að ef sveitarstjórnin mælti með dýrtíðarbeiðninni, hefði stjórnin ekki ástæðu til að leggjast á móti henni.

2. brtt. fer í þá átt, að lánið skuli endurgreiðast á 13 árum, með 10% árlegri greiðslu af hinni upprunalegu lánsupphæð, og vill nefndin ákveða vaxtagreiðslu 4% af lánum þeim, sem veitt verða. Verður ársgreiðslan því 100 kr. af þúsundi í afborgun og vexti, eða nákvæmlega reiknað 100 kr. og 14 aurar. En nefndin áleit rjett að sleppa þessum aurum.

3. brtt. er orðabreyting. Þar er það lagt til, að orðin »neyðin sje sýnileg« falli burt. Nefndin gat ekki skilið þetta, nema þá ef vera skyldi á þann hátt, að sveitarstjórnirnar leituðu ekki hjálpar fyr en farið væri að sjá á fólkinu. Nefndinni fanst þetta ákvæði alveg óþarft.