08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 526 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Fjármálaráðherra (S. E):

Jeg vil að eins taka það fram, í sambandi við brtt. á þgskj. 890, um skrifstofufje til sýslumanna, að hjer er alls ekki um neinn bitling að ræða. Ef svo væri, þá væri það algerlega óhæfilegt af stjórninni að koma fram með annað eins á þessum tímum. Hún hefir litið á málið frá alt öðru sjónarmiði. Hún lítur svo á, að það sje óhamingja fyrir landið að launa mönnum svo illa, að þeir geti ekki rækt fyllilega skyldustörf sín. Hvorki þing nje stjórn geta gert fullkomnar kröfur til embættismanna, sem eru svo illa launaðir, að þeir hafa ekki nægilegt til nauðsynja lífsins. Og jeg vil sjerstaklega taka það fram, að jeg álit það stórhættulega braut að ætla mönnum, sem hafa stórkostlegar fjárinnheimtur með höndum, svo lítil laun, að þeir eigi erfitt með að draga fram lífið. Eins og jeg er sannfærður um, að það er óheppilegt að auka mjög embætti í landinu, eins er jeg viss um, að það er hættulegt að launa illa. Ef embættismönnum eru ekki bætt launin neitt upp, þá eru þeir neyddir til að fara að fást við annarleg störf — fara að »spekulera«. Og jeg hygg, að mönnum dyljist ekki, að hollara verður að hafa starfskrafta þeirra óbundna, og geta þá gert þess meiri kröfur.

Jeg er þakklátur háttv. deildarmönnum fyrir það, að brtt. hefir sætt svo litlum mótmælum, og hygg jeg það stafa af því, að mönnum sje ljóst, að hjer sje um nauðsynjamál að ræða.