22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

162. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg get ekki fallist á skoðun hv. frsm. fjárhagsnefndar (M. G.) í þessu máli. Hann virðist byggja á því, að póstflutningur verði jafnmikill eftir sem áður. Jeg er aftur á móti sannfærður um, að póstflutningur muni minka talsvert mikið. Hvorugur okkar getur sannað nokkuð um þetta nú. Reynslan verður að skera úr því.

Hv. frsm. (M. G.) gat um það, að menn risu öndverðir upp gegn frv., sem komið væri með til að auka tekjur landssjóðs, þótt allir kvörtuðu yfir skorti á tekjum. Þetta er ekki rjett. Mörg slík frv. fá samþykki þingsins. En auðvitað er fundið að þeim atriðum, sem eru ósanngjörn og órjettlát. Jeg vil benda háttv. flutningsmönnum á, að það er vandalaust að taka einhvern gamlan skatt og tvöfalda hann. Það væri t. d. líka hægt að gera við vörutollinn o. fl. tolla. En ekki áliti jeg heppilegt, að farið væri inn á þá braut.

Háttv. frsm. (M. G.) sagðist ekki sjá ástæðu til, að landssjóður greiddi flutningsgjald fyrir blöð og bækur að einhverju leyti. Jeg er á alt öðru máli um þetta. Svo framarlega sem stjórnendum landsins er ant um mentun og menning, á það að gera alt, sem hægt er, til að greiða fyrir útbreiðslu blaða og bóka um landið. Svo gera aðrar þjóðir. (M. G. Hverjar?) T. d. Þjóðverjar. Þessi hækkun er mjög varhugaverð, þar sem hún gæti riðið baggamuninn um bóka- og blaðaútgáfu.

Jeg skal ekki leggja út í neina deilu um þetta mál. En um það er jeg á alt öðru máli en háttv. frsm. (M. G.), hvort nauðsynlegt sje, að bækur og blöð fái góða útbreiðslu um landið. Það er ekki sama, hvað gefið er út. En því meira sem gefið er út, því meira verður það af góðum bókum, sem þjóðinni berst.