21.08.1917
Neðri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

164. mál, tekjuskattur

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg hjelt ekki, að svo langar umræður mundu spinnast um jafneinfalt mál, en úr því að svo hefir farið, þá mun jeg segja fáein orð.

Það, sem kom fram í ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.), kom og fram hjá háttv. frsm. (G. Sv.), og mun mitt svar gilda þá báða, þegar jeg kem að 4. gr.

Jeg vil benda háttv. frsm. (G. Sv.) á það, að ef fylgja á reglum 3. gr., þá verður ekki annað fært en að Alþingi eða stjórnarráð semji almennar reglur um uppgerð sveitabænda, er sýni þeim, hvernig þeir eigi að gera upp bú sín. En það sýnir, hvað þetta ákvæði er þýðingarlaust, að jafnvel sjálfur frsm.

(G. Sv.) segir, að sjaldnast muni tekjur þessara manna fara fram úr 1000 kr. En ef svo er, þá miðar þetta ákvæði að eins til þess að auka fyrirhöfn skattanefnda.

Sami háttv. þm. (G. Sv.) fór vilt í því, er hann sagði um hina stærri útgerðarmenn. Hann segir, að tekjuskattslögin gildi ekki fyrir þá. Jeg vil ráðleggja honum að fara til útgerðarmannanna og spyrja þá að þessu. Jeg hefi símað til ýmsra slíkra manna og talað við þá um þetta, og þeir segja mjer, að þeir greiði skatt af útgerðartekjum sínum; t. d. átti jeg nýlega tal við einn meiri háttar útgerðarmann, sem sagði mjer, að hann greiddi skatt af 100 þús. kr. útvegstekjum. En fyrst að svo er, þá er þetta ákvæði ekki nauðsynlegt. Háttv. frsm. (G. Sv.) sagði, að að minsta kosti stæði á sama um þetta ákvæði. En svo er ekki, því að eftir því eru allir útgerðarmenn skattskyldir og þurfa því allir að telja fram. Fullyrðing hans (G. Sv.) um, að frv. sje ónýtt, ef þessi grein er feld úr, er ekki rjett; frv. er gagnlegt fyrir því. En það má slá því föstu, að þeir, sem ákvæði 3. gr. ná til, geta ekki haft yfirlit yfir tekjur sínar, fram yfir það, sem lögin nú ná til, svo að með ákvæðinu skapast einungis afskaplegt erfiði fyrir skattanefndir.

Háttv. frsm. (G. Sv.) taldi ótækt að sleppa 4. gr., en jeg verð að segja, að 5. gr., sem setur enn harðari ákvæði um þetta en nú gilda, ætti að nægja. En svo vil jeg benda á það, að bankastjórn og sparisjóðir geta ekki framkvæmt þessa skipun, vegna þess, að á fjölda bóka standa engir eigendur, heldur hljóða þær að eins upp á númer. Hvernig er þá hægt að vita, hver á þær? Þótt því að eins væri þessi ástæða, þá nægði hún til að sýna, að ákvæðið er ótækt. Þetta ætti öllum að vera augljóst.