14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

164. mál, tekjuskattur

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Eins og hv. deildarmönnum er kunnugt þá hefir þetta frv. tekið talsverðum breytingum í meðferð hjá háttv. Ed. Það er vikið lauslega að aðalbreytingunni í nál. fjárhagsnefndar, sem sje þeirri, að 10. gr. sem áður var, en er nú 9. gr., orðist þannig, að lögin gangi ekki í gildi þegar í stað, heldur skuli innheimta tekjuskatt í fyrsta sinn á manntalsþingum 1919. Þetta gerir nú það að verkum, sem vísvitandi var tilgangur háttv. Ed., að undan þessum skatti fellur árið 1916. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að þetta ár, árið 1916, var eitthvert það mesta gróðaár, sem yfir þetta land hefir liðið. Sjerstaklega var það uppgripaár fyrir þá menn, sem hv. Ed. vill koma undan þessum skatti, sem eru sjávarútvegsmenn, er rekið hafa útveg í stórum stíl. Fjárhagsnefnd hjer í hv. Nd. furðar nú ekki svo mikið á því, að þessi breyting skyldi koma fram í hv. Ed., af ýmsum ástæðum. En hitt kom nefndinni meir á óvart, að þessi breyting skyldi ná fram að ganga. Það mun standa þannig á því, að 1 af hv. þm. þeirrar deildar, einn úr fjárhagsnefnd þar, sem víst var um að var þessari breytingu mótfallinn, var fjarverandi, og gat því ekki ráðið niðurlögum þessarar óheillabreytingar. En þessu verður auðvitað að taka, eins og komið er. Jeg sagði, að menn þurfi ekki að furða á því, þótt þessi breyting hafi komið fram í hv. Ed., því að þar ráða nú mjög fulltrúar sjávarútvegsins. Og þeir, sem hvað mest mega sín þar, hafa hagað framkomu sinni, að vísu allóþinglega, en þó svo, að ekki var nema eðlilegt, að þeim yrði talsvert ágengt. Breytingar þær, sem þessi deild ályktaði að gera á tekjuskattslögunum, hefir og valdið allmikilli óánægju á meðal forsprakka hinna stærri útgerðarmanna hjer. Og hefir það orðið til þess, að þeir hafa gengið eins og grenjandi ljón út um bæinn, og jafnvel farið út fyrir bæinn, til þess að safna undirskriftum undir áskorun til Alþingis, áskorun, sem út af fyrir sig er á takmörkum velsæmisins að orðalagi til. Jeg skal nú láta hv. deild dæma um, hversu sæmileg þessi aðferð er, á svona tímum. En hitt hygg jeg að orki ekki tvímælis, að hún sje í alla staði mjög óviðeigandi, þegar litið er til þess, að hjer er að eins verið að ná handa landssjóði litlum skatti af þessum mikla gróða, sem ýms stórmenni hjer hafa aflað sjer að ófyrirsynju, af alveg sjerstökum stríðsástæðum. Því að á því leikur enginn vafi, um þennan gróða árið 1916, að hann er til kominn að mestu vegna stríðsins. Jeg geri nú ráð fyrir, að öllum hv. þm. sje kunnugt um, að í öðrum löndum hefir verið reynt að ná skatti af slíkum gróðatekjum, ekki einungis fyrir 1916, heldur alt frá árinu 1914. Þetta er víst, og þetta vita allir. Svo kemur hjer fram einkar hógvær tillaga um að ná litlum hluta af þeim gróða, sem hefir fallið í skaut slíkra manna hjerlendis, og svo vægilega er farið í sakirnar, að ekki er seilst lengra en til 1916, þótt sjerstakur stríðsgróði hafi verið mikill árið 1915 og nokkur þegar 1914. Og núgildandi reglur eru látnar gilda óbreyttar, því að þetta fellur undir reglur tekjuskattslaganna, þannig, að sá skattur, sem er jafnað niður í haust og innheimtur 1918, verður tekinn af árinu 1916. En fyrir atorku og óskapagang sjávarútvegsmanna, hefir það nú á unnist í háttv. Ed, að þessu ári, 1916, er slept úr.

Háttv. deildarmenn hjer muna, að þetta frv. var afgreitt hjeðan með miklum meiri hluta. Hjer í háttv. Nd. eru líka sjávarútvegsmenn, en voru þó sammála um, að þetta væri ekki annað en sanngjarnt og rjett og ætti að ná fram að ganga. Enda höfðu þeir áður lagst á móti öllum tekjuauka, sem lagður var á sjávarútveginn sjerstaklega. Menn muna, hvernig þeir rjeðu niðurlögum frv. um hækkun á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, sem þó var fram komið til að jafna misrjetti, er átti sjer stað. Og forlög verðhækkunartollslaganna urðu þau, sem raun er á orðin, mest fyrir harmagrát útgerðarmanna og fulltrúa þeirra hjer. En svo verður það, segi jeg, að þetta frv., sem afgreitt var hjeðan með miklum atkvæðamun, og hafði þá kosti að vera bæði sanngjarnt og rjettlátt, að dómi sjávarútvegsfulltrúa hjer í deild, að eitt aðalatriðið í tilgangi þess er felt burt í háttv. Ed., og árið 1916 þar með gert tekjuskattfrjálst, að því er sjávarútveginn snertir. Það var fært til ástæðu fyrir þessu í háttv. Ed., að það, sem græddist 1916, hafi aftur etist upp 1917, og því væri það ekki rjettlátt að seilast aftur fyrir sig í skattaálagningu. Fyrir þessari staðhæfingu voru ekki færð nein fullnægjandi rök, enda mun það vera erfitt, því að þetta er harla ósennilegt. Útgerðarmenn munu hafa gert lítið út í sumar, flestir þeirra, og er því auðsætt, að þeir geta ekki hafa beint tapað öllum gróða frá 1916. Sumir þeirra kváðu aftur hafa lagt talsvert í útgerð nú undanfarið, en jeg læt ósagt, að þeir hafi tapað miklu, þótt sjálfsagt geti verið, að þeir hafi ekki grætt. En svo er þess enn fremur að gæta, að þeir góðu herrar, sem gengust fyrir þessum »agitationum«, hafa alveg þagað um það, að stórgróði hefir fallið í þeirra skaut við söluna á botnvörpuskipunum, sem nú er nýleyfð. Þetta söluleyfi var þó sjerstök hlunnindi, sem stjórn og þetta þing ljet þeim í tje. En svo launa þessir menn það með slíkum ærslum og gauragangi, að þeim er lítill sómi að. Þeim hefði verið samboðnara, sem miklum mönnum, að líta á þetta mál með sanngirni og taka því þegjandi og hljóðalaust, þótt lítill skattur væri lagður á gróða þeirra árið 1916, sem var það mesta happaár fyrir þá, sem hjer hefir komið. Af framantöldum ástæðum hefir fjárhagsnefnd ekki sjeð sjer annað fært en að koma með þessar brtt. inn í deildina, sem framhaldsnál. sýnir. Og er þetta, sem hjer hefir verið talað um, aðalbreytingin. Hinar eru smávægilegar, hvort skattur skuli fyrst greiddur af 1000 eða 1500 kr.

En síðan nál. hefir komið út hefir hv. Ed. ekki látið sitt eftir liggja, þótt henni beri, samkvæmt stöðu sinni, að vera afskiftalítil um fjárhags- og tekjumál, og síst til að skemma þau. Fjárhagsnefnd hjer hefir fengið vissu fyrir því, að sjávarútvegsfulltrúar þar hafa hótað því að fella þetta frv. alveg, svo framarlega sem þessi breyting yrði samþykt hjer, svo sem líklegt er að mundi verða Jeg skal nú ekki fullyrða, að þeir mundu þora að efna þessa óþinglegu hótun sína, en víst er um það, eftir annari framkomu þeirra að dæma, að þeim væri vel til þess trúandi. Þar sem nú er komið á seinustu daga þessa þings og því enginn tími til að byrja baráttu, og þrátt fyrir það, þó að nefndin hjer nái ekki með því tilgangi sínum, nema að nokkru leyti, þá vill hún ekki vinna það fyrir, að frv. falli alveg, því að nokkurt gagn getur það gert, þótt breytingin komist ekki að. Hefir hún því afráðið að taka báðar þessar brtt. sínar á þgskj. 933 aftur, svo að málinu verði ekki á síðustu stundu stofnað í voða með þeim. Og liggja hjer þá engar breytingar fyrir frá nefndarinnar hálfu, þótt vilji hennar væri til.

Jeg hygg þó, að meiri hluti háttv. deildarmanna hjer sje enn á sömu skoðun um málið og áður. En jeg vil geta þess hjer, um leið og jeg gef þessa yfirlýsingu, fyrir hönd nefndarinnar, að það er ekki að ófyrirsynju, þó að bæjarfjelögin, og þá sjerstaklega bæjarfjelag Reykjavíkur, taki þetta til rækilegrar íhugunar. Og víst er, að þessir menn, sem hjer hafa sloppið, eiga ekki síst að bera sinn hluta af þeirri byrði, sem nú legst óhjákvæmilega á alla borgara á komandi tímum. Jeg þykist mega segja það fyrir annara hönd hjer, eins og mína eigin, að þess er fyllilega vænst, að bæjarfjelagið gefi nákvæmar gætur að því, sem hjer er að gerast.