29.08.1917
Neðri deild: 46. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Jónsson:

Þegar bannmálið kom í fyrsta sinn til umræðu í allsherjarnefnd, leit, sem eðlilegt er, ekki vel út um, að samkomulag yrði með nefndarmönnunum. Sumir vildu engar breytingar sjá, en öðrum var áhugamál að koma breytingunum fram. En, eins og háttv. frsm. (M. G.) hefir getið um, varð það til samkomulags, að nefndin tilbjó frumvarp það, sem frá henni er komið. Þegar nefndin samdi frv., var jeg ekki viðstaddur, enda hefir sú raunin orðið á, þegar jeg fór að líta nánar á það, að jeg get ekki orðið samnefndarmönnum mínum samdóma um ýmsar af brtt. Nefndin hefir verið í vanda stödd, eins og sjálf deildin, því að hjer er úr vöndu að ráða. Jeg hygg, að það muni rjett vera, sem háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) sagði, að deildin væri ekki samkvæm sjálfri sjer, nema hún afgreiði þetta frv. á sama hátt og frv. það, sem hann og hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) komu fram með.

Jeg hygg, að svo mikið sje af lögreglumönnum, bæði hjer í Reykjavík og öðrum stærri kaupstöðum landsins, að ekki þurfi að láta helming sekta ganga í bæjarsjóði, eða auka löggæsluna á nokkurn hátt með sjerstöku tilliti til bannlaganna. Jeg fyrir mitt leyti vildi óska, að bannlögunum væri í engu breytt, þangað til tími sýnist til kominn að afnema þau með öllu. Lögin er ekki hægt að bæta. Jeg skal ekki fjölyrða um, hvaða brtt. jeg yrði samþykkur, ef til 2. umr. kæmi, þar sem það er ósk mín, að frv. í heild sinni verði afgreitt á sama hátt og andbanningafrv. Sumar brtt. eru auðsýnilega til hins verra. Það eitt skal jeg nefna, að ef deildinni kæmi það betur, þá skyldi jeg greiða atkvæði með ilmvötnunum í 2. gr. En jeg gæti trúað, að kvenfólkið verði bannlögunum ekki hlyntara, þótt það fái ekki að setja ilmvötnin óskemd í hárið á sjer og víðar. Og mun jeg þó greiða þessari brtt. atkvæði.