05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forseti:

Það hefir verið leitað úrskurðar míns um það, hvort brtt. á þgskj. 785 komi í bága við þingsköpin eða ekki.

Í 32. gr. þeirra stendur svo, að brtt. um atriði, sem búið er að fella í deild, má eigi bera upp aftur í sömu deild á sama þingi. Hjer er ekki því til að dreifa. í brtt. er ekki atriði, sem áður hefir verið felt hjer í deildinni, heldur er að ræða um atriði, sem áður hefir verið samþ. hjer, en nú farið fram á að fella burt. Ákvæðið í umræddri grein þingskapanna er takmörkun á frumkvæðisrjetti þingmanna, og eigi rjett að leggja víðtækari merkingu í það en skýr ákvæði greinarinnar heimila, og úrskurðast því, að brtt. á þgskj. 785 komi til umræðu og atkvæða.