05.09.1917
Neðri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

169. mál, aðflutningsbann á áfengi

Bjarni Jónsson:

Tillaga mín er svo einföld og auðskilin, að jeg hjelt, að allir mundu skilja hana. En nú sje jeg, að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefir tekist að misskilja hana. Hann taldi það misrjetti, ef ríkið beitti öðrum refsingum við starfsmenn sína en aðra, þegar þeir fremdu lagabrot. Það er alveg rjett, eins og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) tók fram, að ríkið hafi sjerstaka refsingu í pokahorninu handa sínum þjónum, sem lögin brjóta. Það má setja þau brot lækna, sem hjer ræðir um, við hliðina á embættisvanrækslu, t. d. sýslumanna, og láta það varða embættismissi. En rangt er að svifta þá lækningaleyfi, því að það má ekki gera nema fyrir óhæfu í læknisdómi. Það var því allsendis rjett, sem jeg sagði fyr. Misskilningurinn hjá háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) var sá, að hann hjelt, að læknir, sem sviftur væri embætti, væri og sviftur lækningaleyfi. En svo er ekki; slíkur læknir getur jafnharðan sest að í sínu eigin hjeraði sem lausalæknir, ef honum sýnist svo.

Nú gerist lausalæknir brotlegur við lög þessi; hann fær sína sekt, sem hver annar, er brýtur, en hefir engu embætti fyrir að gera, og jafnt er um hann og fasta lækna, að eigi á að mega svifta hann lækningaleyfi nema fyrir óhæfu í læknisdómi. Væri hann sviftur því, í viðbót við sektirnar, sem hann dæmdist til að greiða, kæmi refsingin miklu harðar niður á honum en t. d vínsölumanninum, sem gert hefði sig sekan í samskonar broti.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta, því að jeg býst ekki við, að menn láti sjer það frekar skiljast, þótt jeg bæti fleiru við. Verður nú hver háttv. þingdm. að ráða það við sig sjálfan, hvort hann vill hjer heldur samþykkja rjett mál eða rangt.

Þá skal jeg minnast ofurlítið á brtt frá háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) um konsúlabrennivínið. Jeg hefi jafnan talið það sjálfsagt, að þótt vínbann væri látið gilda fyrir innlenda menn hjer, þá ætti ekki að þröngva því upp á sendimenn erlendra ríkja, sem lifa hjer undir lögum síns ríkis; og mun jeg því greiða atkvæði móti brtt., enda er hún óþörf, því að það er síst hætta á, að þessir menn fari að brjóta lögin og misbrúka undanþáguna, því að undir eins og stjórnir þeirra fengju nokkurn grun um það, mundu þær kveðja slíka lögbrjóta heim við lítinn orðstír, og aldrei nota þá framar í sína þjónustu. En úr því að jeg tel rjett að veita útlendum erindrekum þessa undanþágu, tel jeg ekki eftir, þótt þeim fjölgi nokkuð, og ekki heldur, þótt okkar kæru bræður við Eyrarsund sendi hingað erindreka. Það hefir lengi verið skoðun okkar hv. þm. N. Þ. (B. Sv.), að svo ætti að vera, að þeir hefðu sína sendimenn hjer, og við okkar þar. Skal jeg minna á skrif Íslendinga um þetta og rit Ragnars Lundborgs, þess manns, sem jeg hefi oft talað hjer um áður. Það kemur nú fram sem oftar, að hvílíku gagni þessir góðu menn mega verða oss, er þeir af lærdómi og velvild skrifa um oss og mál vor.

Í alþjóðarrjetti eftir hinn nafnkunna vísindamann Franz von Lizt stendur svo um Ísland á bls. 56: Island steht in personalunion mitt Dänemark. Þetta stendur þar fortakslaust og vafalaust. Þetta byggir hann á bók Ragnars Lundborgs um Islands staatsrechtliche Stellung. Jeg get þessa í þakklætisskyni við Ragnar Lundborg og hinn ágæta þýska fræðimann, sem af slíkri velvild hefir um oss skrifað, líkt og Konráð Maurer áður og fleiri landar hans.

Þetta er innskot, sem að vísu kemur ekki beint málinu við. En nú sný jeg mjer að því aftur, og segi það enn, að jeg mun ekki telja það eftir, þótt sendiherra Dana ætti kost á að fá sjer hressingu eftir sjóferðina, þegar hann stígur hjer á land. Og jeg vona, að hv. þm. (B. Sv.) taki nú aftur till. sína, í þeirri von, að Danir muni bráðum senda hingað ræðismann.