08.08.1917
Efri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

39. mál, fasteignamat

Frsm. minni hl. (Guðjón Guðlaugsson):

Eins og háttv. þm. er kunnugt varð jeg svo óheppinn að klofna frá í nefnd þessari.

Jeg þarf ekki mörgum orðum um að eyða frammistöðu hv. meiri hluta, þótt háttv. frsm hans (G. Ó) vilji ekki kannast við gerðir sínar. Get jeg ekki annað en skoðað hann minni mann eftir en áður, því að það að þræta fyrir sannleikann ber ekki vitni um drengskap, eftir þeirri merkingu, sem jeg legg í það orð.

Það er í alla staði rjett, sem jeg held fram í nál. Hinir háttv. nefndarmenn játuðu það, að þörf væri á breytingu, en töldu hana ofsnemma fram komna og hjeldu, að hún mundi valda ruglingi.

Háttv. frsm. meiri hlutans (G. Ó.) sagði það oftar en einu sinni, að nógur tími væri til að gera breytingu á lögunum á næsta aðalþingi. Þau orð vill hann ekki kannast við nú, en kveðst altaf hafa haldið því fram, að breytingar væru óþarfar, bæði nú og í framtíðinni.

Jeg verð að segja það, að slíkir samverkamenn, sem ekki standa fastar við orð sín, hljóta að verða ljettir á metunum.

Þetta sannar líka, að það er rjett, sem jeg segi í nefndarálitinu, að jeg hafi ekki fengið að sjá nefndarálit meiri hlutans.

Jeg er ekki svo minnugur, að jeg geti svarað hverju einstöku atriði í löngu máli, sem lesið er upp fyrir mjer í fljótheitum. Jeg hefi ekki heldur svarað nema tveim atriðum Annað þeirra kemur alls ekki í nefndaráliti meiri hlutans. Sýnir það best, að nefndarálitið er ekki í samræmi við það, sem sagt var á fundum nefndarinnar.

Ekki get jeg skilið, að sumt af því, sem stendur í nefndaráliti meiri hlutans, sje á rökum bygt, t. d. það, »að telja megi líklegt, ef ekki víst, að á flestum jörðum verði talsvert af húsum undanþegið skatti, og að hús leiguliða verði þá fremur látin njóta þeirra hlunninda en hús jarðeigenda«.

Þessi orð sýna það berlega, að háttv. meiri hluti hefir ekki vit á málinu. Það þarf engar líkur að því að leiða, að eftir 9. grein fasteignamatslaganna er sá hluti af matsverði húsa, sem fer fram úr helmingi af matsverði jarðarinnar, undanþeginn skatti. En heimild er þar engin gefin til þess að undanskilja fremur hús leiguliða en jarðeigenda. Þessi orð í nál. geta því ekki talist annað en fálm út í loftið.

Þá er því haldið fram, að breytingarnar muni valda ruglingi, og er þeirri fjarstæðu svarað í nál. mínu.

Háttv. frsm. og ritari meiri hlutans (G. Ó.) heldur því fram, að miklar líkur sjeu til þess, að fasteignamatsmenn athugi, er þeir meta, hve mörg hundruð hver jörð verður, og að það geti haft einhver áhrif á virðinguna.

Það má segja um þessa tilgátu háttv. frsm. (G. Ó.), að margur heldur mig sig og mátulega dyggan. Engum getur dulist það, að rangt væri að leggja slíkt til grundvallar við matið. Rjetti grundvöllurinn er sá, sem flestir matsmenn munu byggja á, hvers virði jörðin er, söluverð hennar síðast, eftirgjald fyr og nú, og hve hátt hún hefir verið metin til verðs. Hitt getur alls ekki orðið neinn mælikvarði, hvað jörðin muni verða mörg hundruð, saman borið við það, sem áður var. Jeg veit af jörð, sem metin er nú á 3500 kr, en er eftir matinu frá 1861 að eins talin 4,2 hundruð. Allir sjá, að ekki er hægt að hafa neitt hundraðatal til hliðsjónar, þar sem svo stendur á, og nýleg ótilknúð sala, virðing til lántöku, eftirgjald og virkilegt álit matsmanna fer í fjarstæða átt.

Þá standa þau orð í nál. meiri hlutans, að naumast sje hægt að gera sjer skiljanlegt, hvað því valdi, að þessi grein fasteignamatslaganna stendur svo óþægilega í höfði einstakra manna. Jeg get nú ekki sjeð, að ein lagagrein þurfi að standa neitt óþægilega í höfði manns, þótt maður vilji breyta henni, þegar þess er þörf. Og þessari grein þarf að breyta, og það meðal annars af þeirri ástæðu, að jafnvel lögfróðum mönnum ber ekki saman um skilning á henni. Og því fyr sem breytt er, því betra. Það er trúa mín, að þótt frv. þetta verði felt nú, og þótt háttv. frsm. meiri hlutans (G. Ó.) haldi áfram mótþróa sínum, þá muni málið vekjast upp aftur, jafnvel á næsta þingi, og ekki kæmi mjer það á óvart, þótt kjósendur háttv. sama þm. (G. Ó.) neyddu hann til að haga sjer þá öðruvísi í málinu.

Eins og jeg hefi áður sagt, þá er hjer um efnisbreytingu að ræða, en ekki misskilning á lagagreininni. Hún er rjett skilin þannig, að hverjar 150 kr. í matsverði jarða og húsa, hvort sem það eru hús leiguliða eða ekki, skuli taldar eitt hundrað á landvísu. Nú liggur það í augum uppi, að engin sanngirni er í því að meta hús eins hátt og jarðir, allra síst hús leiguliða.

Jeg hefi því komið fram með breytingar þessar af þörf og af því, að skorað var á mig að gera það.

Það er að vísu rjett, að jeg hefi komið fram með brtt. við upphaflega frv., og gerði jeg það einmitt eftir bendingum háttv. meiri hluta nefndarinnar, og er því lítil ástæða fyrir háttv. frsm. hans (G. Ó.) að kvarta undan breytingum þessum.

Reyndar get jeg sagt það, að jeg græddi lítið á orðum háttv. frsm. (G. Ó.), heldur var það hinn maðurinn í nefndinni (H. Sn.), sem benti mjer á ójöfnur nokkrar, sem fram kæmu, ef frv. yrði samþykt óbreytt.

Þar er svo ákveðið, að hús jarðeigenda skuli metin helmingi lægra en jörðin, og sá hluti þeirra undanþeginn skatti, sem fer fram úr helmingi af matsverði jarðarinnar. Setjum nú svo, að ein jörð sje metin 10 þús. kr. virði, og jarðarhús líka metin á 10 þús. kr; þá verða að eins 15 þús. kr. skattskyldar, en 5 þús. kr. slept, sem engri eign.

Þar sem húsin geta talist dýrmæt eign, þótt ekki sjeu þau eins staðgóð og jörðin sjálf, þá virðist ekki nema sanngjarnt, að greiddur sje skattur af þeim öllum, sjerstaklega þegar þess er gætt, að í frv. er gert ráð fyrir helmingi lægra mati á þeim en í lögunum.

Jeg hefi því komið fram með brtt. þessa, samkvæmt bendingu háttv. meiri hluta nefndarinnar, og kann jeg þvi illa að verða fyrir skensi fyrir það eitt að hafa tekið til greina sanngjarnar bendingar.

Jeg hefi aldrei sagt það, að þetta væru eingöngu formbreytingar. Í nál. mínu stendur: »einkum að forminu«. Jeg veit það vel, að hjer er um efnisbreytingu að ræða, þar sem gert er ráð fyrir, að greiða skuli skatt af öllum húsum, er á jörðunum standa.

Þá er felt burt ákvæðið um það, að jarðabætur síðustu 10 ára skuli dragast frá. Álít jeg rjettmætt að fella það burt, og mun það ekki valda neinum ruglingi og ekki breyta neitt starfsaðferðum fasteignamatsmanna, því að, eins og jeg hefi áður tekið fram, þá hafa þeir ekki treyst sjer til að framfylgja ákvæði þessu.

En samkvæmt reglugerð landsstjórnarinnar frá 26. janúar 1916 er það skylda fasteignamatsnefnda að bókfæra skýrt og greinilega út af fyrir sig hverja fasteignartegund, jörð, hús jarðeigenda, hús leiguliða og hús húsmanna og 10 ára mannvirki.

Jeg álít, að þeir, sem semja fasteignamatsbók, geti alveg eins hæglega unnið úr skýrslum þessum fyrir því, þótt slept sje ákvæðinu um það, að draga skuli frá við matið umbætur síðustu 10 ára.

Jeg hygg svo, að ekki sje fleira í þessari 1. gr. frv, sem koma á í stað 9. gr. laganna, er þurfi skýringar við.

Þá er ákvæðið um launin. Jeg lýsti yfir því þegar í byrjun, að mjer væri það ekki kappsmál, að þau yrðu hækkuð. Umræður um það atriði urðu ekki heldur miklar í nefndinni. En jeg verð þó að líta svo á, að launin sjeu alt oflág, ef í þeim eiga að felast ferðapeningar. Hefði ef til vill verið rjett að láta þessar 5 kr. standa óhaggaðar, en bæta við ferðapeningum. Slík breyting hefir þó ekki komið fram, enda mætti búast við, að ákvæði það yrði misbrúkað.

Mitt frv. var upphaflega sniðið eftir frumvarpi því, sem þingið hafði til meðferðar í vetur. En þar var gert ráð fyrir, að fæðispeningar og ferðakostnaður fasteignamatsnefndarmanna og yfirmatsnefndarmanna skyldi vera 6 kr. fyrir hvern dag. En ef aldrei hefði verið farið fram á breytingu á þessu atriði, þá mundi jeg hafa látið það standa óbreytt nú. Annars geri jeg þetta ekki að neinn kappsmáli, en jeg álít deildinni samt minkun í að fella þessa breytingu. Jeg álít það út í veður og vind, að samnefndarmenn mínir tala um þessa hækkun sem dýrtíðaruppbót. Því að mjer er vel kunnugt um, að þeir myndu síðastir manna verða samþykkir slíkri uppbót. Jeg miða ekki kaupið við það dýrtíðarástand, sem nú er, heldur hefi jeg hjer fyrir augum ástandið eins og það er á vanalegum tímum. Mjer blandast ekki hugur um, að kaupið er langtum oflágt, og jeg ætlast til, að þetta kaupgjald, sem jeg fer fram á, nái jafnt til yfirmatsmanna sem undirmatsmanna.