08.08.1917
Efri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1794 í B-deild Alþingistíðinda. (1732)

39. mál, fasteignamat

Sigurður Eggerz:

Það er örstutt athugasemd.

Jeg álít, að rangt hafi verið, að skattaákvæði voru sett í þessi lög. En úr því að ákvæðin eru nú í lögunum, þá vildi jeg taka þetta fram. Í 9. gr. laganna er takmarkað, hversu mikið af verði húsanna á jörðinni geti komið til skatts, á þá leið, að það getur aldrei orðið meira en sem nemur helmingi af matsverði jarðarinnar. Með þessu ákvæði er það víst haft fyrir augum, að jörðin sje áreiðanlegri gjaldstofn en húsin. Eftir þessu ákvæði er mikið af húsum undanþegið skatti. En eftir brtt. minni hluta nefndarinnar við þessa grein verður að líta svo á, að þessi takmörkun umræddrar greinar sje þar með fallin burt. (G. G.: Það er líka meiningin). En þá er vafamál, hvort húseigandinn er ekki ver settur en áður, því að ef þessar takmarkanir eru feldar burt, verður meira af húsunum skattskylt. Jeg álít, fyrir mitt leyti, að þetta skattamálaatriði mætti taka til athugunar síðar, en jeg get ekki verið með brtt. minni hlutans, sem þetta atriði snerta. Hins vegar álít jeg sanngjarnt að hækka kaup matsmanna.