11.08.1917
Efri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (1740)

39. mál, fasteignamat

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Ólafsson):

Svo er að sjá, sem lítið ætli að draga saman með okkur hv. 4. landsk. þm. (G. G.) í þessu máli. Því að jeg fæ ekki annað sjeð en að ver sje farið, ef 9. gr. fasteignamatslaganna verður úr gildi numin, fyrst að hún hefir verið þar frá upphafi. Hún getur haft áhrif á matið og hefir gert það, að jeg hygg, og getur því ruglingur hlotist af, ef henni er nú kipt í burt. Annars var þessi grein sett til þess, að taka mætti eftir henni ábúðarskattinn, meðan ekki yrði búið að semja ný skattalög. Reyndar ráðgerir háttv. 4. landsk. þm. (G. G ), að skattalög verði samin á næsta þingi, en þingsagan hefir svo þráfaldlega sýnt það, að framkvæmdir geta dregist nokkuð mikið á slíkum áformum. Og ef því verður ekki lokið 1. apríl 1920, þegar jarðamatsbókin gengur í gildi, þá er þó lakara, að þessi grein skuli ekki vera til, því að þá er jafnframt úr lögum numin tilskipun 1. apríl 1861, um löggilding nýrrar jarðabókar fyrir Ísland.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) taldi þessa grein ekkert koma fasteignamatinu við. Ef svo er, þá er hún að minsta kosti meinlaus. En, eins og jeg hefi bent á, þá er þetta misskilningur hjá háttv. þm. (G. G.), því að menn hafa einmitt tekið tillit til greinarinnar, og er því rangt að nema hana úr gildi, að svo stöddu.

Jeg tel ástæðulaust að minnast á launaviðbótina, sem fekk að standa eftir í frv. við 2. umr., þó að jeg hafi annars ýmislegt fleira um það efni að segja en jeg hefi gert hingað til.