11.08.1917
Efri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

39. mál, fasteignamat

Frsm. minni hl. (Guðjón Guðlaugsson):

Mjer þykir leitt, að hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) getur ekki skilið að reglurnar fyrir matinu eru svo ljósar, að ekkert er um að villast fyrir matsmennina, hvernig þeir eiga að meta. Jeg er því á sömu skoðun og áður, að það geti ekki ruglað matið, þótt 9. gr. laganna verði numin í burt. Matsmennirnir eiga alls ekki að taka hana neitt til greina. Það að bera saman hið gildandi hundraðatal við það, sem verður eftir að jarðir eru metnar nú eftir sannvirði þeirra, það gera nefndarmenn að eins sjer til skemtunar, en kemur matinu alls ekkert við.

Um skattgjaldið er það að segja, að þótt það dragist til 1920 að semja skattalög, þá hefir engum komið til hugar að afnema gamla ábúðarskattinn. Landsstjórnin tekur sig nú væntanlega til og semur sjerstaka bók, þar sem fasteignir eru lagðar í hundruð, og svo verður ábúðarskatturinn tekinn samkvæmt henni. Skatturinn verður sami og áður, en hundraðatalan breytist. Annars hygg jeg, að til þessa geti naumast komið, því að allar líkur eru til þess, að aukaþing verði að ári, og svo verður reglulegt þing 1919, og er næsta ólíklegt, að bæði þingin sleppi skattalögunum með öllu. Því að nú er sannarlega ekki vanþörf á að fara að hugsa eitthvað fyrir tekjunum og hætta að snúa sífelt þeirri sveifinni að ausa út fje, án þess að hugsa um, hvað koma á í staðinn.

Jeg hygg, að ekki geti liðið lengur en til 1920, að almenn skattalög verði sett fyrir landið, og er þá auðvitað, að þetta atriði verður einnig tekið með.