31.08.1917
Neðri deild: 48. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

63. mál, bæjarstjórn á Akureyri

Frsm. (Einar Árnason):

Þetta frv., sem hingað er komið frá háttv. Ed., er flutt að ósk bæjarstjórnar Akureyrar.

Frv. þetta heimilar bæjarstjórn Akureyrar að kjósa bæjarstjóra, er hafi með höndum stjórn bæjarmálefnanna. Til þess liggja þau drög, að störfin við bæjarmálin eru orðin svo umfangsmikil, að þess er varla að vænta, að bæjarfógeti, sem, eins og kunnugt er, jafnframt er sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu, geti annað þeim öllum, jafnvel þótt hann hafi góða aðstoð.

Í sjálfu sjer er mál þetta að mestu sjermál viðkomandi bæjarfjelags og bakar landssjóði engin ný útgjöld, því að laun bæjarstjóra skal greiða úr bæjarsjóði. En meðan málið var til meðferðar í háttv. Ed. komu fram óskir frá mörgum málsmetandi mönnum á Akureyri um ýmsar smábreytingar á hinu upphaflega frv.

Þessar óskir hefir Ed. að miklu leyti tekið til greina, og svo hefir nefndin hjer í Nd. bætt við því, er á vantaði, í samráði við háttv. þm. Ak. (M. K.), flm. frv.

Nefndin leggur til, að gerðar sjeu nokkrar smávægilegar breytingar á frv., en að eins ein þeirra er efnisbreyting, sú, að bæjarfulltrúar sjeu 11, í stað 9. Nefndinni sýndist rjett að taka þessa ósk Akureyrarbúa til greina, enda var það með fullu samþykki háttv. þm. Ak. (M. K.). Hinar brtt. eru að eins orðabreytingar. En í sambandi við brtt. við 2. gr., um 11, í stað 9, skal jeg geta þess, að nefndinni hefir sjest yfir að breyta orðalagi 4. gr. frv. Hún er miðuð við það, að bæjarfulltrúar sjeu 9, og þar tekið fram, að ? hluti þeirra skuli kosinn í einu. En þegar tölunni er breytt í 11, getur þetta orðalag ekki staðist, og býst jeg við, að nefndin athugi þetta til 3. umr. og komi þá með brtt. við þessa grein.

Ætla jeg svo ekki að orðlengja frekar, en vona, að frv. fái greiðan gang gegnum deildina, svo að það geti orðið að lögum nú á þessu þingi.