18.07.1917
Efri deild: 10. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

66. mál, gjöld til holræsa og gangstétta á Akureyri

Flm. (Magnús Kristjánsson):

Fátt er um mál þetta að segja, fram yfir það, er jeg sagði um þetta mál, er var hjer áður til umræðu, frumvarp til laga um bæjarstjórn á Akureyri.

Hjer er um það eitt að ræða, að hjálpa. ungu og uppvaxandi bæjarfjelagi til þess að koma sem bestu skipulagi á þrifnað hjá sjer og heilbrigðismál yfirleitt.

Það vona jeg að allir vilji styðja.

Þeirri mótbáru kunna einstöku menn að hreyfa gegn máli þessu, að með því sje lagt ofmikið vald í hendur bæjarstjórninni. En jeg hygg, að sá ótti hafi við mjög lítið að styðjast.

Það liggur í augum uppi, að bæjarstjórnin fer ekki að ráðast í að verja stórfje til slíkra hluta, nema því að eins, að hún telji bæjarfjelagið hafa gagn af því. Og eins og nú er þá er að eins hugsað um þá kafla, þar sem þörfin er allra brýnust. Víst tel jeg það og, að bæjarstjórnin kynni sjer, áður en hún ræðst í fyrirtækin, hvort hlutaðeigandi húsaeigendur og lóðaeigendur vilja eitthvað á sig leggja í þessu efni. Að endingu vil jeg benda þeim á, er kunna að halda þessu fram, að bæjarstjórnin getur ekki ráðist í nein stórvirki í þessum efnum nema með samþykki landsstjórnarinnar. Þetta getur því aldrei verið hættulegt.

Jeg vænti þess, að háttv. deild samþykki frv. þetta og greiði hið besta fyrir því, svo að það nái afgreiðslu á þessu þingi.

Úr því að mál það, er lá hjer næst áður fyrir, um bæjarstjórn á Akureyri, var vísað til allsherjarnefndar, þá finst mjer best fara á því, að hún fái einnig mál þetta til athugunar, og leyfi mjer því að leggja til, að því verði til hennar vísað, að lokinni þessari umræðu.