10.08.1917
Efri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

66. mál, gjöld til holræsa og gangstétta á Akureyri

Frsm. (Hannes Hafstein):

Í þessu stutta nefndaráliti er eiginlega alt tekið fram, er nefndin hefir að segja um frv. Nefndin hefir komið sjer saman við hv. flm. frv. (M. K.) um nokkrar breytingar, sem að mestu leyti eru orðabreytingar, en þó ekki eingöngu. Eins og menn vita er ákveðið, að bæjarstjórn hafi heimild til að leggja sjerstakan skatt á húseigendur og lóða, þar sem bærinn hefir á sinn kostnað lagt holræsi og gangstjettir. Frv. ákveður og, að skattur þessi skuli trygður með lögveði í húseignum og lóðum. En nefndinni þótti nægilegt, að lögtaksrjettur fylgdi.

En þar, sem húseigandi vanrækir að leggja ræsi frá húsi sínu út í göturæsið, er bæjarstjórn heimilað að láta framkvæma verkið á hans kostnað. Þótti nefndinni rjett að láta bæjarsjóð hafa lögveð í húsinu fyrir þeim kostnaði, auk lögtaksrjettar.