27.07.1917
Efri deild: 16. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

91. mál, manntal í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get ekki sjeð, að það sje sanngjarnt að heimta það af bæjarfógeta Reykjavíkur, að hann láti í tje svona stórt afrit endurgjaldslaust. Jeg geri að vísu ráð fyrir, að bæjarfógeti geti heimtað þetta fje af bæjarsjóði, en samt virðist það varla vera rjett af Alþingi að heimta það, að eftirritið kosti ekkert, því að jeg er viss um, að það muni ekki kosta minna nú en 300 kr. Það hefir altaf orðið dýrara og dýrara að afskrifa þetta, og því vildi jeg skjóta því til flutnm. (K. D.), hvort rjett sje að láta þetta af hendi endurgjaldslaust. Það er hið sama og að leggja yfir 200 kr. skatt á bæinn. Afritið er stórt, og eftir því, sem bæjarbúum fjölgar, stækkar það og, kostar því eðlilega altaf meira og meira.

Jeg sje ekki, að það sje í raun og veru bein þörf á því, að hagstofan fái þetta afrit, en ef svo er, þá getur hún sjálf keypt eftirritið.