18.08.1917
Neðri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1895 í B-deild Alþingistíðinda. (1900)

91. mál, manntal í Reykjavík

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Mjer er kunnugt um, að hagstofan hefir einmitt óskað eftir því, að þessu yrði breytt eins og frv. gerir ráð fyrir. Jeg veit ekki til, að það sje skylda að láta prestana fá eftirrit af manntalinu, og því þarf að skylda bæjarsjóð til að láta þá eða hagstofuna fá það. Það eykur að vísu bæjarsjóði dálítinn kostnað, en hjá því verður ekki komist, ef skýrslurnar eiga að vera rjettar, en við því er ekki hægt að búast með því fyrirkomulagi, sem nú er. Úr því að á annað borð er verið að gera þessar skýrslur, er nauðsynlegt að hafa þær rjettar. Jeg sje því ekki, að ástæða sje til að bregða fæti fyrir þetta frv., sem er komið svo langt.